Espergærde. Umstang. Mon Dieu!

Sennilega ætti ég að taka mér til fyrirmyndar hinn aldna rithöfund sem byrjar hvern morgun – undantekningarlaust – á því að skrifa færslu dagsins í dagbókina sína. Hann vaknar, fer í inniskóna sína, klæðist morgunslopp, röltir svo inn á litlu skrifstofuna sína og sest við skrifborð. Þar liggja dagbók, svartur blekpenni og lesgleraugun. Án þess að hika skrifar hann fyrstu línuna hugsunarlaust og nær þannig að fanga síðustu slitrur næturdraumsins og setja á dagbókarsíðurnar.

Þetta tekst mér ekki. Í dag er klukkan til dæmis 20:47 og ég er nýsestur við tölvuna mína. Næturdraumar mínir eru löngu sloppnir úr öllum þeim netum og druslum sem ég hef reynt að veiða þá i. Dagurinn er búinn. Hvað hef ég afrekað? Fátt. Mér hefur þó nærri tekist að fá útgáfudag bókarinnar minnar staðfestan. 20. október 2020. Ætli þjóðin bíði með öndina í hálsinum? Varla. En nú get ég farið að raða dögunum saman; hvenær ég verð á Íslandi til að kynna bókina, hvenær ég fer í eina viku í skrifbúðir og hvenær ég verð heima í Danmörku. Frakklandsferð er aflýst.

Annars fór þessi dagur, eins og fleiri dagar, í að undirbúa fermingu Davíðs. Það á ekki alveg við mig að gera svona mikið úr hlutunum; allt þetta umstang í tilefni af fermingu. Mon Dieu!

ps. Annars bað félagi minn, bókaútgefandinn um að fá pláss hér á síðunum. „Ég er með frábært dagbókarbrot!“ En það var of seint, ég var búinn að skrifa í dagbókina áður en ég fékk upphringinguna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.