Dagurinn er runninn upp og Davíð verður fermdur í dag. Ekki veit ég hversu Guðstrúin er honum ofarlega í huga, en hann hyggst játa trú sína frammi fyrir Guði í kirkjunni í dag. Nokkra daga undirbúningi fyrir veislu hér á Søbækvej er lokið. Kannski fullmikið umstang fyrir litla veislu að mínu mati en Sus er skipuleggjandinn og er betri í því en ég svo ég hlýði og er hvorki með leiðindi eða er til trafala heldur fullur af athafnakrafti.
Í nótt hafði ég aðallega áhyggjur af tækninni því ég er búinn að búa til smá-show fyrir Davíð og það verður sýnt gestum til skemmtunar í sjónvarpi heimilisins í gegnum tölvuna mína – sem er ansi full af dóti, gömul og hæg – svo í nótt fór ég eitthvað að hugsa um vandann við að fá Apple-TV til að virka almennilega því það er dyntótt kerfi. Svefninn varð því eitthvað skrykkjóttur.
Ég les ekkert þessa dagana, ég skrifa ekkert en ég byrja þó dagana á því að hlaupa eða gera leikfimiæfingar. Hvern morgun hamast ég og er ég bullandi sveittur til að gera líkamann sterkari og úthaldsbetri. Garmin úrið mitt – sem mælir allt – segir að ég sé með líkama 20 ára manns. Því á ég harla erfitt með að trúa. Ég man vel þegar ég var 20 ára og sprettina sem ég tók upp og niður fótboltavöllinn, skothörkuna þegar ég skaut á mark og úthaldið sem virtist ekki hafa nein endamörk. Þetta hefur breyst með árunum: skotin lausari, hraðinn minni og úthaldið … ja, ég hleyp ekki endalaust.
Til hamingju með fermingardrenginn og daginn kæra fjölskylda.
Góðar kveðjur úr Aðalstræti 32.
Takk kærlega fyrir hlýjar kveðjur.