Þegar ég vaknaði í morgun – allt of snemma – gerði ég mé grein fyrir að þetta yrði ekki dagur stórafreka. Garmin úrið mitt sem segir mér allt um stöðu líkama og sálar, tilkynnti að ég væri gífurlega vansvefta; svefntími var 3 kls og 37 mín. Mér fannst ég samt bara nokkuð hress og hóf þegar í stað eftir morgunbaðið að ganga frá eftir veislu gærdagsins, vaska upp, tæma hálftómar bjórdósir, fylla ruslapoka af tómum dósum og tómum vínflöskum, bera lánshúsgögn út, bera húsgögn niður af eftir hæðinni. Ég stoppaði ekki fyrr en allt var komið á sinn stað og varla sáust leifar af veislu næturinnar. Skoði maður sig um – sem ókunnugur maður – dytti manni bara ekki í hug að hér hafi farið fram nætursvall.
Já, veislan heppnaðist vel. Gestirnir voru glaðir, kokkurinn eldaði góðan mat og skemmtiatriði vel heppnuð. Allt var gott. Myndashowið (blanda af ljósmyndum og hreyfimyndum með stuttum textaskýringum) sem ég hafði búið til fyrir Davíð haltraði að vísu í gang. En það var einmitt það sem ég hafði óttast. Sambandið við Apple-Tv rofnaði, iPhoto neitaði að sýna millitexta en það tók mig þó ekki nema 5 mínútur að fá kerfið til að verka. Þessi tæknivandi stressaði mig ekki baun allt leysist. Show-ið fór auðvitað í gang í keyrði flott. Ég held að Davíð hafi verið ánægður með veisluna – það segir hann að minnsta kosti sjálfur.
Ég sá að íslenska kirkjan er farin að kynna sjálfan Jesú með brjóst í bæklingum sínum. Ég veit ekki hvers vegna kirkjunni þyki það smart að láta frelsarann fá kvenlíkama. Þetta á örugglega að sýna hvað hugur kirkjunnar er frjáls og glaðsinna. Næsta skref er að gera Jesú að grænmetisætu og baráttumann fyrir grænni veröld. Það eru fín og vinsæl baráttuefni. En kannski sýnir þessi nýja sýn íslensku kirkjunnar á frelsarann hversu andlaus og ráðvillt stofnunin er. Hvenær ætli frjálslyndir sagnfræðingar teikni upp mynd af Jóhönnu frá Örk með alskegg og bringuhár til að gera sagnfræðina svolítið hressilegri? En hvað er ég að skipta mér af þessu, mér er svo fullkomlega sama um sprikl íslensku kirkjunnar, hún má gera það sem hún vill enda lít ég á hana sem gersamlega marklausa stofnun sem veit hvorki hvert hlutverk hennar er eða hvað hún vill þjóðinni. Hvert ætli erindi kirkjunnar á Íslandi sé. Ekki lyftir hún andanum?