Japan, Kyoto: Akito-maðurinn

Hó. Þá er maður búinn að vera nokkra daga í Kyoto, Japans næststærsta bæ. Það má segja að ég hafi haft miklar væntingar til Kyoto, bæinn sem mig dreymdi um þegar ég hugsaði um að gaman væri að koma til Japans. Kyoto var í mínum huga háborg fegurðar, innri róar, jafnvægis og hins hreina tóns. Allt var fallegt í Kyoto. Þetta minnir mig á söguna af birninum og tígrisdýrinu sem á göngu sinni fundu trékassa og á honum stóð Panama. Þeir félagarnir grandskoðuðu kassan, sem var óvæntur fundur í skóginum. Þeim fannst kassinn lykta af bönunum og drógu þá ályktun að Panama væri draumalandið og það ilmaði uppúr og niðrúr af bönunum. Þangað skyldu þeir flytja.

Svipaða sögu má segja um mig og Kyoto. Einu sinni seint um kvöld sit ég einn og þreyttur á skrifstofu minni á Bræðraborgarstíg. Ég er í þann mund að slökkva á tölvunni, slökkva á Blonde Redhead sem leika og syngja í bakgrunninum og búa mig til heimferðar. Skyndilega opnast dyrnar og inn úr kvöldinu fyrir utan kemur skáld með hatt.
“Gott kvöld, forleggjari góður,” segir skáldið. “Áttu kaffi?” Já, ég átti kaffi og þótt ég væri þreyttur og langaði heim var skáldið auðfúsugestur. Hann var nýkominn úr enn einni utanlandsferðinni og að þessu sinni var Kyoto í Japan síðasti viðkomustaður hins víðförla höfundar. Langt væri liðið á kvöld þegar hann hóf langa frásögn um dvöl sína í Kyoto.
“Í Kyoto kom ég inn í garð, undurfagran, allt var svo grænt. Steinarnir voru mosavaxnir, grasið djúpgrænt og snöggskorið. Trén höfðu svo þéttan grænan laufskrúða að ekki einu sinni hvellur tónn komst í gegn. Niður lítinn klett og í gegnum garðinn hríslaðist mjór lækur og endaði í silfurgrænni tjörn þar sem rauðir, feitir karfar syntu. Friðsældin var alger. Í þessum garði, í litlu grasivöxnu rjóðri neðst í hlíðinni hitti ég munk. Við stóðum þar einir og átti ég við hann hið merkilegasta samtal um fegurð hlutanna. Meðal annars sýndi hann mér gamla, stóra komparklukku sem var formuð eins og fræbelgur í blómi. Þegar hann sló í klukkuna með tréhamri hljómaði tónn svo djúpur og svo hreinn að ég held að hann hafi komið frá annarri tónvídd en þekkist hér á jörðu.”
Með þessa mynd af Kyoto í höfðinu kom ég til borgarinnar á sunnudaginn. Við höfðum brunað á 700 km/t í lestinni og það má vel vera að sálin hafi ekki verið komin á áfangastað þegar ég steig út úr lestinni því ég sá nokkuð aðra Kyoto borg en ég hafði fyrir hugsskotssjónum mínum. Munkurinn var hvergi sjáanlegur og garðurinn sem ég bjóst við að mundi opna sig þegar ég kæmi út úr lestarstöðvarbyggingunni var hvergi nærri. Aftur á móti breiddi Starbucks faðminn á móti mér.

Við höfum gengið 14 km að meðaltali síðan við komum til bæjarins og ég hef hvorki fundið töfragarðinn né hinn hreina tón. En ég hitt óvænt sálufélaga mína í garði kallaður Buddukahn, í miðri Kyoto-borg. Þar voru saman komnir meira en 100 bardagamenn og æfðu Akito. Þetta var sérkennileg sýning, eins og dans í slow motion. Fullkominn agi og einbeiting, enginn sagði orð á meðan tveir og tveir æfðu endurtekið sama bragðið.

IMG_4964 (1)

Ég er líka Akito bardagamaður. Eða svo sagði endurskoðandi minn fyrir mörgum árum. “Þekkirðu ekki Steven Segal, kvikmyndastjörnuna?” spurði hann. “Jú, ég veit hver hann er,” svaraði ég.
“Það merkilega við Steven Segal er að hann er Akito-bardagamaður. Hann er ekkert sérstaklega sterkur en hann vinnur alla bardaga. Það er vegna þess að hann nýtir styrk árásarmannsins. Ef einhver slær Steven, þá slær hann ekki til baka heldur tekur hnefa andstæðingsins í högginu og notar höggkraftinn til að þeyta andstæðingnum út í vegg. Svona bardagamaður ert þú.”

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.