Espergærde. „Ég gerði hvorugt.“

Stundum hugsa ég að gaman væri að hitta og spjalla við hina og þessa sem ég hef álit á. Til dæmis langar mig stundum að hitta Kazuo Ishiguro, rithöfundinn. Mér gafst kostur á því einu sinni fyrir löngu þegar ég var staddur í London en ég sendi Eirík Guðmundsson á hans fund í staðinn fyrir mig. Sá fundur endaði uppi á hótelherbergi Eiríks.

Mig langar líka stundum að hitta Pep Guardiola, fótboltaþjálfarann, og ræða um sabbatárið hans í New York. En ég hef enn ekki haft tækifæri á að hitta hann. Það kemur að því.

Ég las einu sinni skemmtilega frásögn kólumbíska rithöfundarins Gabriel García Márquez um að hitta frægt fólk. Hann hafði alltaf dreymt um að hitta Ernest Hemingway. Dag einn var Márquez staddur í París, höfuðborg Frakklands. Þetta var rigningardag að vori, árið 1957.  „Ég þekkti hann samstundis,“ sagði Márquez. En Hemingway var á gangi ásamt þáverandi eiginkonu sinni Mary Welsh eftir Boulevard St. Michel í átt til Luxembourg garðsins. Þau voru hinum megin götunnar. Hemningway í sínum slitnu gallabuxum og með derhúfu á höfðinu. „Akkúrat eins og hann átti að vera,“ sagði Márquez. „Það eina sem passaði ekki á hann voru gleraugun. Hann bar kringlótt silfurspangargleraugu. Hann varð svo afalegur með þau, bara 59 ára. Hemingway var stór og eiginlega alltof sýnilegur. En það skein ekki af honjm að hann væri ógnarsterkur eins og hann hefði örugglega sjálfur óskað. Það var vegna þess að hann hafði alltof mjóar mjaðmir og svo hafði hann spóaleggi fyrir ofan í stóru fjallgönguskóna sína.

Hemingway var fullur af fjöri, þar sem hann stóð við bása fornbókasalanna á götunni, og unglegur. Það er skrýtið að hugsa til þess að hann átti bara fjögur ár ólifuð.

Á sekúndubroti efaðist ég um hvað ég ætti að gera. Ég hafði tvö hlutverk og ég var einhvern veginn fastur á milli þeirra. Átti ég að spyrja hann hvort ég mætti taka viðtal við hann, sem blaðamaður, eða átti ég að ganga yfir til hans til að tjá mína djúpu aðdáun á honum. En hvort tveggja fannst mér óþægilegt. Á þessu tíma talaði ég lélega ensku, eins og í dag, og ég var ekki viss um að spænska Hemingways væri til að skilja. Ég tók ákvörðun, eða ákvörðunin kom til mín. Ég gerði hvorugt. Ég vildi ekki eyðileggja þetta stóra augnablik svo ég myndaði trekt fyrir munninn með höndunum, eins og Tarzan í skóginum, og kallaði frá minni gangstéttarbrún: „Maaaaaeestro!“ Ernest Hemingway skildi að ekki gat verið staddur annar meistari á götunni svo hann leit upp, veifaði til mín og kallaði á katalónsku, með mjög barnalegri röddu: „Adioooos, amigo!“ Þetta var í eina skiptið sem ég sá hann.

marques og hemning

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.