Þrautseigja rauðhærða höfundarins

Svo ólíklega vill til að nú les ég glæpasögu eftir Arnald Indriðason, Einvígið. Ólíklega, segi ég, því ég hef ekki sótt sérstaklega í að lesa bækur Arnaldar. Það er ekki vegna þess að mér finnist bækur hans lélegar, þvert á móti. Ég tek hattinn ofan fyrir Arnaldi. Hann er í heimsklassa sem glæpasagnahöfundur, í sama flokki og Ian Rankin, Minette Walters og allir þessi fínu klassísku glæpasagnahöfundar. Ég hef ekkert sérstakt vit á glæpasögum, ég hef þó lesið margar slíkar sögur, en ég tel mig þó vita að Arnaldur er í fremsta flokki. Handbragðið er gott og svo finnst mér hann ansi seigur að hafa skrifað eina sögu á ári frá árinu 1997 (ég held að ég fari með rétt mál). Þessi þrautseigja er aðdáunarverð.

Ég held að ég hafi síðast lesið bók eftir Arnald árið 2001 þegar ég las bókina Grafarþögn. Þetta man ég því ég las hana upphátt fyrir Sus, sem þá var nýflutt til Íslands og mér til skemmtunar þýddi ég bókina jafnóðum á ensku. Erlendur, aðalpersónan fékk nafni Foreigner og aðstoðarmaður hans, Sigurjón, fékk nafnið Victory John í enskri þýðingu minni.

ps. Ég las í gær reiðipistil verkalýðsforingjans, og verðandi stjórnmálamanns, Sólveigar Jónsdóttur, sem birtur var í Kjarnanum. Mér finnst eins og nú hafi tónninn í umræðunni breyst, sennilega orðinn herskárri en hann hefur verið. Ég var ekkert sérlega hrifinn af pistlinum sem mestmegnis var skammir og óánægja en fátt um nýjar hugmyndir (kannski bara engin) hvernig bæta má úr því sem ekki er nógu gott. Ég minnist á þennan pistil hér því ég er enn hálfundrandi yfir tóninum.

pps ég tók ljósmynd á hlaupunum í morgun og birti hana hér efst

ppps Ég sá líka gamla markmanninum, Peter Schmeichel, bregða fyrir í morgun. Mér varð litið í átt til húss hans á Strandvejan og sá skuggamynd hans í gegnum glugga fá sér sopa af kaffibolla. Í annarri hendinni hélt hann á kaffibolla sem hann bar upp að vörum, en í hinni, þeirri vinstri, hélt hann á undirskál og gerði sig líklegan til að setja kaffibollan ofan á undirskálina þegar hann hafði fengið sér sopa.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.