Titrandi útgáfunef

Árið 2003 kom út í New York bókin Kite Runner (Drekahlauparinn) eftir afganska rithöfundinn Khaled Hosseini. En einmitt um þessar mundir er því fagnað (af forlaginu og höfundinum) að tuttugu ár eru liðin síðan þessi mikla metsölubók kom út. Bókin hefur selst í 56 milljónum eintaka (þetta eru staðreyndir fyrir þá sem hafa áhuga á velgengni bóka og höfunda). En saga bókarinnar er hálfgerð Öskubuskusaga.

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjá morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði  af stað til læknahússins til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann sinnti sjúklingum sínum var hann með hugann við aðalpersónur bókarinnar sem hann skrifaði, Drekahlauparann.

Leið handritsins frá eldhúsborðinu og út til bóksalanna var bæði löng og torfær eins og stundum vill verða með miklar sölubækur. Þegar Hosseini hafði lokið við að skrifa söguna sendi hann handritið til umboðsmanna víða í Bandaríkjunum og fékk þrjátíu og eitt höfnunarbréf (nánast öll eins orðuð). Það var ekki fyrr en lítil umboðsskrifstofa, Elaine Koster, tók verkið að sér og seldi til Riverhead útgáfunnar í New York (hluti af The Penguin Group). Bókin var prentuð árið 2003 en fékk litla athygli. Höfundurinn fylgdi útgáfunni eftir með tveggja vikna kynningarferð um Bandaríkin og það var víst heldur dapurleg reynsla. Oft talaði Khaled yfir tómum sölum og sjaldnast mætti einhver í skipulagðar bókaáritanir í bókabúðum landsins. Höfundurinn snéri því hnípinn heim. Þótt hann væri gífurlega stoltur yfir bókinni  misst hann á þessu ferðalagi alla trú á að bókin ætti eftir að seljast  og sneri sér því að sjúklingum sínum af heilum hug. Bókadómar tóku að birtast og  voru flestir jákvæðir en salan var mjög dræm. Árið 2004 ákvað forlagið þrátt fyrir allt að gefa bókina út í kilju og það var einmitt þá sem áhugi á bókinni vaknaði smám saman.

Enginn veit nákvæmlega hvað setti sölu bókarinnar í gang en það var nokkrum mánuðum eftir að kiljuútgáfan kom út að bókin settist á topp metsölulista NYT um það bil 18 mánuðum eftir að bókin kom fyrst út.

Það var einmitt um þessar mundir  á sumarmánuðum ársins 2004 – sem langleggjaður og nefstór útgefandi í Reykjavík tók eftir bókinni.
„Kite Runner?“ hugsaði hann.
„Er þetta eitthvað fyrir íslenska markaðinn? Hvað er eiginlega Kite Runner?“
Forleggjarinn hafði hann ekki hugmynd um hvað Kite Runner var en hófst samt handa við að fá ameríska umboðsmann höfundarins til að senda sér bókina. En þessi ágæti umboðsmaður var vandfundinn og þótt útgáfunef forleggjarans titraði við tilhugsunina um bókina lagði hann ekki nógu hart að sér við að komast í sambandi við umboðsmanninn. Enn og aftur kom bókin í huga útgefandans án þess að bregðast almennilega við þessari tilfinningu sinni að þarna væri bók á ferðinni sem hann ætti að skoða almennilega. Það var ekki fyrr en í árslok 2004 sem útgefandinn hafði loksins upp á  umboðsmanninum og skrifaði bréf með fyrirspurn um Drekahlauparann. Svar frá umboðsmanninum kom um hæl. Íslenski þýðingarrétturinn var seldur til JPV-útgáfu.

dagbók

Ein athugasemd við “Titrandi útgáfunef

  1. JPV var heppinn að klófesta Flugdrekahlauparann. Svo var mér boðið til New York og borðaði með höfundinum og umboðsmanninum. Bæði voru ákaflega elskulegt fólk eins og flestir eru sem fara í þennan bransa. Það voru ekki stjörnustælar í Hosseini.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.