Í gær skrifaði Kaktusinn um þá einstaklinga sem reyna að bregða ljósi á líf íslenska bókamarkaðarins, líf rithöfundanna og líf bókanna með skrifum sínum á eigin heimasíður. Kveikjan að skrifum gærdagsins voru annars vegar orð Ármanns Jakobssonar þar sem hann orðar það svo fínt að hann neiti að gefast upp fyrir fjölmiðlaþögninni í kringum bækur og ákvað að stofna sinn eigin fjölmiðil: Bókmenntir og listir. Hin kveikjan að skrifunum var hin ákaflega sorglega reynsla sem ritstjórn Kaktussins varð fyrir í fyrradag. Ritnefndin ákvað að leita eftir „inspiration“ fyrir Kaktusskrif á samfélagsmiðlunum. Það var svo sannarlega sorgleg sjón.
Þetta er það sem Kaktusinn varð vitni að: Höfundur eftir höfund – í neyð sinni – birtir fyrst mynd af sjálfum sér sitja á stól við borð á einhverri glataðri forlagsskrifstofu og fyrir framan höfundinn liggur samningur um nýja bók sem höfundurinn og forlagið hafa lokið við að skrifa undir. Útgáfusamningur undirritaður, bók væntanleg í haust, stendur undir myndinni. Viðbrögð facebookvina: „Duglega þú!“ „Sæta þú!“ „Vá næs!“ Næsta mynd í röðinni er af blaðabunka á borði (handrit að væntanlegri skáldsögu) og undir myndinni stendur eitthvað í líkingu við: Loksins … handrit útprentað og sent til ritstjórans. Næsta mynd sýnir nýhannaða bókakápu á væntanlegri skáldsögu og undir myndinni: Á leið í prentun. Svo kemur að því að fyrsta eintak kemur úr prentun og þá er birt mynd af fyrsta eintaki (og stundum með umslaginu sem eintakið hefur verið sent í með póstinum). Undir myndinni: Fyrsta eintakið komið frá prentsmiðju. Bókin fer í dreifingu í október. Viðbrögð facebookvinanna láta aldrei á sér standa: „Hlakka til að lesa.“ „Get ekki beðið.“ (Right). Ritnefndin hugsaði: Getur þetta verið meira óspennandi. Getur þetta verið meira óspennandi. Getur þetta orðið meira óspennandi. Stopp!
Og svo gerðist það. Ritnefndin settist á ritnefndarfund snemma í morgun eða klukkan 8:05 til að ræða alls slags ákúrur sem ritnefndin hefur fengið og nýjan tölvupóst sem barst í gærkvöldi frá lesanda Kaktussins. Tölvupósturinn var lesinn upphátt og ritnefndinni til mikillar undrunar lýsti bréfritari nákvæmlega því sama og ritnefndin sjálf hafði uppgötvað á ferðalagi sínu um samfélagsmiðla. Bréfritari segir:
„Ég sé að það er kviknað á Kaktus aftur og það er gaman að lesa hann – fróðlegar færslur. Ég vildi óska að færslurnar hefðu kveikt hjá mér eftirvæntingu og spenning fyrir jólabókaflóðinu sem nú er að fara í gang. En því miður gerðu þær það ekki – ég held að ég hafi aldrei verið minna áhugasöm um það flóð eða statusana sem rithöfundar eru nú byrjaðir að birta um að bækur þeirra séu nýlega farnar í prent eða í gámi úti á rúmsjó og væntanlegar í búðir í október. Þetta er allt svo þreytt eitthvað. En vonandi leynast 1-2 góðar bækur í öldunum sem áhugavert verður að lesa. Ég spái því að Arnaldur muni eiga mest seldu bókina, Ragnar Jónasson verði í öðru og Yrsa jafnvel í því þriðja.“ Andvarp.
Kaktusinn getur með heilum hug vitnað um að nokkrar góðar bækur eru á leið á jólabókamarkað. Svo skemmtilega vill til að ritnefndin hefur fengið og lesið handrit að nokkrum bókum sem eru „í gámi úti á rúmsjó og væntanlegar í búðir í október …“. Kaktusnum er mjög annt um trúverðugleika sinn og því mun Kaktusinn ekki hæla væntanlegum bókum eftir vini ritnefndar en Kaktusinn vill vekja athygli á tveimur bókum, báðar eftir konur sem enginn í ritnefnd þekkir. Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur (42) á án efa eftir að vekja mikla athygli. Þórdísi hefur tekist að skrifa ansi þétta, marglaga, spennandi, óvenjulega og athyglisverða bók. Kaktusinn hefur heimildir fyrir því að handritið að bókinni liggi nú á skrifborðum stórforlaga víða um Evrópu og velta útlendir ritstjórar því fyrir sér þessa dagana hvort þeir eigi að veðja á þennan unga, íslenska höfund. Hin bókin sem Kaktusinn getur ábyrgst að veki athygli og áhuga er bók Bergþóru Snæbjörnsdóttur (38), Duft. Bergþóra, höfundur Svínshöfuðs, vakti mikla athygli í fyrra fyrir bók sína Allt sem rennur. Nýja bókin staðfestir að Bergþóra er einn forvitnilegasti höfundur landsins.
Kaktusinn hefur ekki lesið handrit að öllum væntanlegum bókum á bókamarkað og vel getur verið að aðrar stórkostlegar bækur séu væntanlegar sem Kaktusinn hefur ekki hugmynd um. Kannski eiga demantar og perlur eftir að skolast á land með flóðinu.