Ef ljón kemur stökkvandi til yðar

Kæra dagbók ég vaknaði seint í morgun. Ekki fyrr en klukkan 07:20. Mig hafði dreymt gamla Svart á hvítu forleggjarann Björn Jónasson og mig hafði líka dreymt Davíð sem brosmilt smábarn. Hann var aftur orðinn litla barnið mitt. Þetta var góður draumur. Ég var enn eitthvað svo sæll þegar ég gekk niður í eldhús  til að fá mér morgunkaffið að Sus spurði mig hvað væri svona fyndið. „Ekkert,“ sagði ég. „Mig dreymdi bara svo vel.“

Og svo settist ég við morgunverðarborðið og ég las  Kultur-sectionen í Politiken og þá sprakk ég úr hlátri. Heimurinn var bara svo fyndinn. Í blaðinu las ég um frægan, þýskan óperuleikstjóra herra Konwitschny sem er þekktur fyrir sínar nýstárlegu óperuuppsetningar um allan heim. En í síðustu viku var hann skyndilega rekinn með skít og skömm frá Nürnberg-óperunni fyrir að hafa sýnt konu í óperukórnum, sem var dökk á húð og hár, kynþáttafordóma með ummælum sínum. Samkvæmt blaðinu lék konan nunnu í óperunni og leikstjórinn reyndi að leiðbeina henni að líta út fyrir að vera skelfingu lostinn og flýja vopnaðan byssumann. Leikstjórinn mun hafa sagt: „Frú M, svona  lítur maður ekki út í þessum skelfilegum aðstæðum … Þetta er eins og í Afríku. Ef ljón kemur stökkvandi til yðar getið þér ekki litið undan.“

Óperan Trubaduren eftir Verdi verður því ekki sýnd í Nürnberg-óperunni í ár.

ps. Þetta er myndin sem vakti drauminn um Davíð. Hér er hann nokkra mánaða.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.