Ég náði ekki að skrifa dagbók í gær því ég var upptekinn við annað. Undanbúningurinn fyrir vinnustofuflutninginn hefur átt hug minn þessa helgi; ég hef málað, spartlað, skrúfað sundur og saman. Ég flyt vinnustofuna heim, hingað upp á aðra hæð í mínu gamla tveggja hæða húsi hér á Søbækvej. Davíð flytur úr herberginu sínu og niður í gestaherbergi en ég yfirtek herbergið hans. Þess vegna þessi fegrunarvinna.
ps. Annars gerðist það á föstudaginn mér til nokkurrar gleði (og undrunar) að ég setti þetta svakalega hlaupamet. Ég hljóp 5,2 km meira en einni mínútu og fimmtán sekúndum hraðar en ég hef áður best gert í minni nýju hlaupatörn.
pps. Og í dag lokum við Jón Karl Bókaskápnum. Við höfum hjálpast að við að skrifa daglegar bókmenntafréttir og reynt að finna skemmtileg tíðindi úr bókmenntaheiminum rétt til að sporna við algerri þögn. En sem sagt í dag þögnum við.
ppps. Og ég í dag afrekaði að selja 210 litra af ólífuolíu á einum degi.
