Espergærde. Fyrirmyndir

Ég er með hund í heimsókn, ég er að passa hund og ég hef notað morguninn til að ganga með hundinn; það tekur tíma. Göngutúrinn tók meira en tvo klukkutíma en á meðan ég fetaði göturnar með hundinn í bandi, var lesið fyrir mig. Hallgrímur er ekki alveg búinn að lesa alla bókina sína, Sextíu kíló af sól, fyrir mig en ég nálgast sögulok. Ekki er ég mikill hundamaður í mér, en ég veit að þeir sem eiga hund, einn eða fleiri, sjá varla sólina fyrir hundvinum sínum. Hér er mynd af hundinum sem ég passa.

Með hund á göngu.

Ég hlustaði áðan á viðtal Jórunnar Sigurðardóttur útvarpsmanns við rithöfundinn Steinunni Sigurðardóttur. Ég dáist alltaf af því hve Steinunn er bæði skýrmælt (orðin eru stöfuð ofan í hlustendur) og skýr í hugsun. (Óskýrt tal ber oft vitni um óskýra hugsun). Það er gaman að hlusta á hana tala um feril sinn (fimmtíu ár!). Ég furðaði mig þó á því að Steinunn skyldi halda því fram að hún hefði ekki átt sér neinar fyrirmyndir sem ungur höfundur í menntaskóla því þar voru fyrst og fremst karlar sem sinntu ritstörfum (fáar konur) og það voru þeir sem vildu leynt og ljóst verða skáld; Pétur Gunnarsson, Sigurður Pálsson og Þórarinn Eldjárn.

Ég á mér margar fyrirmyndir í lífinu, ein þeirra er t.d. J.K. Rowling. Ég tek hana mér til fyrirmyndar því mér finnst hún hafa afrekað margt sem ég dáist að, til dæmis að hafa skrifað bókaflokkinn um Harry Potter. Mér finnst engin sérstök þörf á að fyrirmynd mín sé karlmaður – en ég á auðvitað líka karlfyrirmyndir. Sem verðandi rithöfundur hefði mér þótt sjálfsagt að taka mér aðra höfunda til fyrirmyndar – ekki endilega aðra af sama kyni, heldur þá sem maður dáist að fyrir ritverk sín, hæfni sína. En það getur svo sem vel verið að ég sé hér á stórkostlegum villigötum eins og oft áður; að ég ætti bara að taka aðra karla mér til fyrirmyndar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.