Espergerde. Vondur stíll

Ég hafði kannski ekki stórar væntingar til gærdagsins, en ég hafði samt vonast eftir einhverju upplyftandi. En satt að segja gerðist ekkert merkilegt í gær. Mér barst ekki einu sinni tölvupóstur frá neinum sem ég þekki. (Ég er orðinn það gamall að auðvitað á ég að vera fyrir löngu búinn að læra að ekkert þýðir að bíða ef maður vil að eitthvað stórkostlegt gerist. Maður lætur stórkostlega hluti gerast, þeir koma sjaldnast til manns, því miður.)  Thomasi, duglegi maðurinn, kom þó í heimsókn. Hann vildi spyrja hvenær ég gæti spilað tennis aftur og hvað væri eiginlega að ökklanum á mér. Annars leið dagurinn við bóklestur og matargerð (ekki get ég gengið). Og ég les tvær bækur í einu því mig þyrstir í að finna eitthvað gott.

Tvær bækur í einu, já. Annars vegar les ég nú íslenska þýðingu Karls Sigurbjörnssonar á Gilead eftir Marilynne Robinson og hins vega les ég Varúlfur eftir Fred Vargas í þýðingu Guðlaugs Bergmundssonar. Gilead er frábær og þýðing Kars er þægileg aflestrar, smekkleg og vönduð. Þótt ég hafi ekkert vit á þýðingum leyfi ég mér að segja að ég hafi á tilfinningunni að bók Fred Vargas líði fyrir þýðinguna. Ég hökti í gegnum setningarnar sem ég á stundum erfitt með að finna upphaf og endi á. Og af og til skil ég hreinlega ekki hvað setning á að þýða á íslensku. Þetta truflar mig og ég næ ekki sambandi við þessa miklu verðlaunabók. Ég held að ég hafi áður reynt að lesa bókina og hætt við af þessari sömu ástæðu. Í þetta sinn ætla ég að reyna að lesa svolítið meira, kannski verð ég skarpari, augun opnari og kannski finn ég lykilinn að textanum.

Ps Las viðtal við Dominico Stallone, ítalska rithöfundinn sem sumir telja vera Elenu Ferrante. Nýlega eru útkomnar tvær bækur á dönsku eftir höfundinn, gefnar út af tveimur mismunandi forlögum á sama degi. Ég verð bara pirraður þegar ég sé svona, því ég veit að baki því að tvö forlög gefa samtímis út sama höfundinn  eru einhver gífurleg leiðindi. Og ég skil satt að segja ekkert í umboðsmanni Stallone (sami agent og sér um bækur Ellene Ferrante) að selja sama höfund til tveggja forlaga. Ber það vott um vondan stíl. Finnst mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.