Giftingarvottorð í nýjum ramma.

Þegar rithöfundurinn Henry Miller var 34 ára gamall féll hann gersamlega kylliflatur fyrir ungum dansara sem félagar hans lýstu sem bæði barnalegri og dulfarfullri. Hún kallaði sig June Mansfield en hét víst eitthvað allt annað. Hún var 24 ára. Henry skildi í miklu bráðræði við þáverandi konu sína Beatrice til að geta helgað June alla sína ást. En ekki löngu eftir að Henry og June höfðu gift sig hljóp snuðra á þráðinn. June eignaðist ástkonu, fröken Andrews eins og Henry Miller kallaði hana.

Kvöld eftir kvöld lá Henry einn inni í herbergi sínu í litlu íbúðinni í Brooklyn og las í bók D.H. Lawrence Woman in Love. Honum fannst ástargyðjan hafa snúið baki við sér því June var byrjuð á því að bjóða ástkonu sinni heim og rak eiginmanninn úr hjónarúminu til að gera pláss fyrir fröken Andrews. Henry sjálfur, eiginmaðurinn, varð að taka sæng sína og lak og búa um sig á sófanum í stofunni á meðan ungu konurnar tvær stunduðu háværa ástarleiki inni í hjónaherberginu. Kvöld eftir kvöld fóru konurnar tvær á barrölt, komu  léttölvaðar heim við miðnæturbil og lögðust síðan saman inni í svefnherbergi hjónanna.

Henry greip til þess ráðs í örvæntingu sinni að láta ramma giftingarvottorð þeirra June inn og hengja fram í anddyrið. Kvöld eftir kvöld gengu hinar ástföngnu konur flissandi framhjá nýinnrömmuðu vottorðinu án þess að virða það viðlits og stefndu ótrauðar á hjónaherbergið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.