Ég frétti að JK Rowling, enski rithöfundurinn sem skrifaði Harry Potter bækurnar, hafi sent frá sér nýja bók, nú undir nafninu Robert Galbraith. Þetta er fjórða bókin í glæpaseríu sem höfundurinn hefur skrifað síðustu ár undir þessu höfundarnafni. Nýja bókin er örugglega merkileg fyrir margar sakir en þó vekur helst athygli að hún er 1080 blaðsíður. Dálítið löng bók, en JK Rowling hefur margt að segja um viðfangsefnið sem hún hefur valið að láta nýju bókina fjalla um; það er skuggahliðar félagsmiðlanna. Sjálf hefur Rowling mátt þola bæði líflátshótanir og almennar svívirðingar á facebook og twitter fyrir skoðanir sínar.
Annar rithöfundur sem líka hefur þurft að þola allskyns háð og spott fyrir skrif sín er sænski glæpasagnahöfundurinn Camilla Läckberg. Þykir sumum af sænskum félögum hennar í rithöfundastétt að hún skrifi hörmulega lélegar bækur og þykja tök hennar á tungumálinu jafn léleg og hjá litlu barni. Leif G.W. Persson sagði eitt sinn að sögur hennar væru af sömu gæðum og þær sögur sem börn birtu í barnatímaritinu Min hest (Hesturinn minn). Camilla svaraði þessari gagnrýni með því að panta áskrift í 10 ár að Min hest og lét senda blaðið heim til Leif G.W Persson. Sömuleiðis brást Camilla skemmtilega við ónotum sem Ulf Lundell (sænskur listamaður) setti fram í dagbókaskrifum sínum sem hann gaf út í bókarformi í fyrra. Þar segir Ulf að Camilla Läckberg sé bókmenntalegur ruslahaugur. Það var Camilla Läckberg óánægð með og ákvað að hefna sína á útsmoginn hátt. Hún lagði fram háar fjárhæðir til að styrkja Kivik Art Center svo þau gætu gert við og haldið við 19 metra háum steyputurni i Österlen. En það er einmitt sami turn og Ulf Lundell hefur sl. tíu ár barist gegn og reynt að fá rifinn niður því ofan úr turninum er víst gott útsýni niður í búgarð Lundells sem er í námunda við turninn. Mun Lundell hafa orðið ævareiður þegar hann frétti af fjárstyrk Camillu.
Þetta var um samlyndi sænskra rithöfunda. En nóg um það. Í morgun hljóp ég 10 km og tíminn var góður. Af því tilefni tók ég sjálfsmynd og ég reyndi að fá svolitla sveiflu í myndina. Þetta er árangurinn.

ps. Mér var bent á að ég eigi ekki að taka mynd af spegilmynd minni þegar ég tek sjálfur ljósmynd af sjálfum mér. Heldur beina eigin myndavél beint að sjálfum mér (ekki með spegil sem millilið). Ég geri það síðar.
Turnmaðurinn, óvinur Läckberg, er Ulf Lundell. Hann er tónlistarmaður, myndlistarmaður og rithöfundur. https://www.expressen.se/noje/lackbergs-hamnd-pa-lundell-efter-harda-kritiken/
Ups. Ég hef fengið þetta vitlaust upp í hausinn. Takk fyrir leiðréttingu.