Hitt fólk á bókamessu

Í gær mætti ég að beiðni forlagsins míns í Hörpu til að taka þátt í bókamessu sem þar er haldin. Ég vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast á íslenskri bókamessu sem nú er endurlífguð eftir að covid-faraldurinn hafði kæft bókamessuna síðustu tvö ár. Þegar ég kom inn í Hörpu var ég hissa á því hversu fámennt var í Hörpunni. Þarna á staðnum virtist varla vera aðrir en þeir sem voru á einhvern hátt tengdir bókabransanum; starfsmenn forlaga, höfundar eða fólk sem tengist bransanum á annan hátt. Mér fannst ég varla sjá þarna almenna lesendur. Þó var fyrsti maðurinn sem ég rakst á gamall bekkjarfélagi minn úr barnaskóla og hann getur maður kallað almennan lesanda. Og til að gera innkomu mína á bókamessu í Hörpu einstaklega ánægjulega hafði hann lesið bókina mína og hafði um hana falleg orð. Ég var því glaður þegar ég gekk í átt að sölustandi Bjarts. Ég komst þó ekki langt, því á leið minni mætti ég Heiðari Inga Svanssyni  sem er formaður félags íslenskra bókaútgefenda. Það var ánægjulegt að spjalla við hann þótt ég muni satt að segja ekki um hvað við ræddum.

Ásmundur Helgason, bókaútgefandi, sá glaðlyndi maður sat á sínum Drápu-sölubás og ég get ekki haldið áfram göngu minni án þess að heilsa upp á hann. Hann reyndi mjög að selja mér glæpasögu, Stóri bróðir, sem hann gefur út. En þar sem ég hef aðeins tekið hlé á glæpasagnalestri tókst honum ekki að freista mín.

Jakob Ásgeirsson, bókaútgefandi, var í næsta bás og ég gat ekki annað en heilsað upp á hann og við ræddum um áhuga hans og nýjan metnað að gefa út vandaðar bókmenntaþýðingar. Hann gefur út E.M. Forster, Anthony Burgess, Milan Kundera, Annie Ernaux, Fleur Jaeggy (sem mér finnst algerlega frábær). Útgefandinn sagðist ekki selja mörg eintök af bókunum svona um 70 ef hann væri heppinn en þó náði hann að selja 1000 eintök af nóbelsverðlaunahafanum Annie Ernaux,

María Rán Guðjónsdóttir, útgefandi Angústúru, var næsti viðmælandi minn. María Rán er mjög sjarmerandi kona og mér finnst hún gefa út vandaðar bækur og oft fínar bækur. Allt prentverk og öll hönnun er til gífurlegarar fyrirmyndar. Ég skoðaði bók sem hún gefur út, Jarðstetning, sem var bæði athyglisverð og flott.

Sverri Norland, sá bjarti maður, var með barnabækurnar sínar í sölubásnum sínum glaður á svipinn. Við spjölluðum og ég keypti nokkrar bækur af fínu útgáfunni hans.

Ég kom líka við hjá Einari Kára hjá Unu, útgáfuhúsi. Einar Kári er augljóslega vænn maður og kannski er hann og forlagið hans nýja von íslenska bókabransans?

Þegar ég kom loksins að bás Bjarts tók Ármann Jakobsson á móti mér. Hann sagði einhver falleg orð um bókina mína sem hann hafði lesið fyrir hálfum mánuði. Það var ansi athyglisvert að fylgjast með prófessor Ármanni í söluham. Honum tókst að lokka nánast alla þá sem nálguðust sölubás Bjarts til að kaupa bókina hans, glæpasögu sem kom út í sumar. Hann bauð áritanir og konfekt og þótt fórnarlömb Ármanns  lýstu því yfir að þeir væru ekki aðdáendur glæpaskrifa hans tókst honum samt að selja þeim bókina sína. Ármann var í gífurlegum ham. Auðvitað voru Bjarts aðalmenn líka á básnum, Páll Valsson, Pétur Már og Bjarni Þorsteins. En ég komst fljótlega að því að mér var ofaukið á þessum fína bás. Ég gat ekki með nokkrum móti skrúfað mig í sölugírinn og alls ekki til að selja eigin bók. Ég varð bara feiminn við sjálfan mig. Á sveimi í kringum básinn voru skáldkonurnar Auður Jónsdóttir og Kamilla Einarsdóttir. Ekki spjallaði ég við þær enda orðinn hálffeiminn við allar aðstæður.

Ég lagði því á flótta úr básnum og gekk í flasið á Antoni Helga Jónssyni, ljóðskáldi sem ég held að hafi verið að selja eign ljóð í lausasölu eða jafnvel að bjóðast til að yrkja ljóð fyrir gesti og gangandi. Ég komst aldrei að því hvers vegna hann hafði sinn eigin sölubás á bókamessunni. Á meðan á öllu þessu gekk sá ég Hallgrím Helgason, rithöfund, nokkrum sinnum út undan mér og mér til stórkostlegrar furðu fann ég að hann sýndi á sér móðgunarmerki. Eða var ég ímynda mér eitthvað? Hann snéri í mig baki þegar ég nálgaðist hann og aftur og aftur þegar leiðir okkar skárust á gólfi Hörpu sýndi hann af sér þessi merki um að hann væri móðgaður út í mig. Ég hafði ekki tækifæri að spyrja hann hvað angraði hann. En þegar ég kom heim í gær átti ég tölvuspjall við einn félaga minn sem er betur að sér en ég  í hinum ýmsu núningum manna á milli í íslenskum bókmenntaheimi frétti ég hjá honum að skrif mín um ætlað meistaraverk Guðna Elíssonar (sem kannski er meistaraverk) og mismunandi skilningur minn og Hallgríms á hugtakinu meistaraverk hefði farið svona öfugt ofan í hann. Mun hann víst hafa skrifað um það á Facebook (en þau skrif fóru alveg framhjá mér eins og annað á Facebook). Ég varð enn meira hissa þegar ég fékk skýringarnar á móðguninni því ekkert í grein minni um meistaraverkið (sjá link) er til þess fallið að verða móðgaður yfir. En svona er hið litla bókmenntasamfélag á Íslandi; stundum er lágt til lofts. Stundum svífur yfir andi langrækni og fýlu út af litlu sem engu. Eitthvað hlýt ég að hafa sagt sem fór svona fyrir brjóstið á hinum mikla rithöfundi en ég get bara með engum móti fundið það.

Kolbrún Bergþórsdóttir gekk líka um ganga bókamessunnar, hlaðin pinklum og pjönkum, og hún var heldur ekki í stuði til að heilsa upp á mig. Hún var ekkert sérlega kát með bókina mína og sagði frá því í Kiljunni. En er það ástæða til þess að geta ekki mætt augnatilliti mínu? Hún forðaðist að líta til mín og í gærkvöldi sá ég eftir að hafa ekki gengið á hana því það er engin ástæða til að heilsa ekki manni sem hún hefur þekkt í meira en þrjátíu ár bara af því að hún hefur ekki gefið jákvæðan bókadóm. Þetta fór svolítið fyrir brjóstið á mér og ég varð hálf miður mín þegar ég kom heim. Hvers konar er þetta eiginlega?

Ég spjallaði við miklu fleiri og átti mjög skemmtileg samtöl við Rán Flygenring (teiknara og bókahöfund), Friðgeir Einarsson (rithöfund), konu hans Sigrúnu sem var skólasystir Sölva sonar míns. Ég spjallaði við Egil Jóhannesson (framkvæmdastjóra Forlagsins), Þórhildi Garðarsdóttur (fjármálastjóra Forlagsins), Úu Matthíasdóttur (forleggjara) Árna Matthíasson (blaðamann) Jón Atla (glæpasagna og leikritahöfund). Það er alltaf gaman að hitta Stellu Soffíu Jóhannesdóttur hjá Storytel. Ég gæti haldið lengi áfram því í Hörpu var meira eða minna allur íslenski bókabransinn samankominn.

Síðasti maðurinn sem ég hitti á leið minni út var Kristján B. Jónasson fyrrum forleggjari. Sennilega ætti ég að vera ansi móðgaður út í hann enda skuldaði hann mér allháa peningaupphæð þegar útgáfan hans fór á hausinn. Ég er auðvitað ekkert sérlega ánægður með hvernig öll þau skuldamál fóru, og samskipti okkar út af þeim, en það er ekkert lengur við því að gera. Kristján er kominn á önnur mið og er farinn að gefa út ansi falleg póstkort og plaköt. Okkur Sus langaði að eignast fallegt plakat með íslenskum fuglum og íslenskum blómum sem hann hefur látið hanna og prentað. Kristján er mikill smekkmaður í prenthönnun. Við gengum því í básinn til hans til að kaupa þessi veggspjöld af honum. Kristján var í essinu sínu  – hann hafði verið að tala við Kolbrúnu Bergþórsdóttur þegar okkur bar að garði og Kolbrún var fljót að safna saman sínu hafurtaski  og láta sig hverfa. Kristján vantar sjaldnast orð til að lýsa skoðunum sínum og hann lét gamminn geysa í vinsamlegum tón um bókina mína sem hann hafði lesið.

Ég var satt að segja feginn þegar ég yfirgaf Hörpu, settist upp í bílinn minn og brunaði af stað út úr bænum þangað sem norðurljósin loga.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.