Reykjavík. Listi yfir persónur

Brottfarardagur. Þrír dagar í Reykjavík að baki. Hér kemur listi yfir þá sem ég hitti á þremur dögum innan póstnúmers 101.

Sandra Snæbjörnsdóttir (laugardagskvöld á Hjarðarhaga og morgunkaffi á þriðjudagsmorgni. Samtal um glatað útvarpsviðtal, hvernig Ítalir bera fram WOW AIR (WOW HAIR), hlaupanámskeið í Esju og hlaup eftir Laugavegi. Sinfoníuhljómsveit áhugamanna. Stöðu Keilis gagnvart Suðurgötu í hægriumferð. Göngutúr niður á Ægisíðu og út til Suðurgötu.)
Steinþór Níelsson (laugardagskvöld á Hjarðarhaga og morgunkaffi á þriðjudagsmorgni. Samtöl um boranir niður á 5 km dýpi og hvernig maður bregst við 500 gráðu hita.)
Agla Steinþórsdóttir (laugardagskvöld á Hjarðarhaga og morgunkaffi á þriðjudagsmorgni. Samtöl um notkun orðsins ógeðslegt. Um vinkonur á leikskóla. Um silungsveiðar í djúpum drullupollum. Notkun veiðarfæra. Göngutúr niður á Ægisíðu og út til Suðurgötu.)
Styrmir Steinþórsson (laugardagskvöld á afmælisdegi hans á Hjarðarhaga og morgunkaffi á þriðjudagsmorgni. Göngutúr niður á Ægisíðu og út til Suðurgötu. )
Palli Vals (bröns á sunnudegi á Bárugötu, skipulögð ferð um menningarstofnanir Reykjavíkur (innan 101). Aftur á mánudegi til að taka á móti bók Bergsveins Birgissonar, Leitin að svarta víkingnum og fá lánaðan Toyotabíl. Samtöl um Cavetónleika í New York, skíðaferðir til Austurríkis, myndlist Kristínar Gunnlaugsdóttur, meistaratök Bergsveins Birgissonar á frásagnartækni, sumarferð til Danmerkur.)
Nanna Hlíf Ingvarsdóttir (bröns á sunnudegi á Bárugötu, skipulögð ferð um menningarstofnanir Reykjavíkur (innan 101). Samtöl um Suður-Ítalíu að sumri, um menningarstofnanir í Reykjavík, um Húbert Nóa, Georg Guðna og aðra myndlistarmenn)
Ilmur Stefánsdóttir (leiðsögn um eigin listsýningu á Listasafni Reykjavíkur)
Valur Freyr Einarsson (leikarinn gekk með okkur um sýninguna á Listasafninu og aftur hittumst við á mánudegi í innganginum á Vesturbæjarsundlaug. Samtöl um velgengni Arsenal og störf leikara sem leikur í vinsælum leiksýningum.)
Sölvi Snæbjörnsson (heimsókn á Ásvallagötu á sunnudegi, gönguferð inn í miðbæ og borðað á Mikkelerbar á sunnudagskvöldi. Mánudagsmorgun klukkan 07:00 kom Sölvi með kaffi til að drekka með morgunbrauðinu. Gönguferð inn í bæinn til að ná í snúð hjá Sandholtbakara og rúnstykki hjá Brauð og Co. Önnur gönguferð inn í Aðalstræti til að ná í kaffiduft. Samtöl um húðflúr og myndlist, bjór og rekstur veitingastaða).
Ingibjörg Þorsteinsdóttir (heimsókn á Ásvallagötu á sunnudegi, gönguferð inn í miðbæ og borðað á Mikkelerbar á sunnudagskvöldi. Samtöl um húsnæðismarkað í Reykjavík og Hafnarfirði. Um skapgerð karlmanna á miðjum aldri í samanburði við skapgerð kvenna á sama aldri.)
Eldri kona í sundlaug á mánudegi. Í samtali kom í ljós að hún var mamma Skúla og Vladísar Gunnarsbarna. Samtal um ritlist Kúrda sem búa í Svíþjóð.
Ókunnug ung kona sem ég á að vita hver er. Langt samtal um mitt gamla forlag og stöðu þýddra bókmennta á íslensku.
Margrét Pálmadóttir á göngu eftir Hofsvallagötu. Þrjátíu mínútna samtal um stöðu alheimsins.
Jón Karl Helgason stuttur fundur á Kaffi Vest. Samtöl um væntanlega Danmerkurferð og um eldri starfsmenn Kaupþings fyrir hrun.
Gísli Marteinn Baldursson stutt kveðja í gegnum glugga á mánudagseftirmiðdegi.
Hafliði Arngrímsson heimsóttur á sjúkrabeð með bolla af cappuchino frá Kaffi Vest á mánudegi. Rætt um Hergilsey, þyrlupall og sængurgerð úr æðadún. Yfirlýsingar Guðbergs Bergssonar í útvarpsviðtali. Verndun náttúru í Breiðafirði. Auk greiningar á vöðvabyggingu lærvöðva.
Matthildur Hafliðadóttir samtal um arkitektúr, fegurð handteiknaðra súlna í gömlum húsateikningum og burðarþol bygginga reiknað af verkfræðingum.
Uggi Jónsson fundur á strætóstoppustöð. Samtöl um Berlín og stöðu dagbókaskrifa á 21. öld.
Ragnar Nói Snæbjörnsson heimsókn á Ásvallagötu á mánudagskvöldi. Samtöl um einhverfu, lagerstörf og lífið í Mexíkó.
Dalía Lopez heimsók á Ásvallagötu á mánudagskvöldi. Samtöl um að vera forstjóri, um íslenska tungu, spænska tungu, og ensku. Ræktun hænsna í náttúrunni og eiturlyfjabaróna í Mexíkó.
Milla og Móna í heimsókn á mánudagskvöldi. Samtöl um málverk, Legokubba, vinkonur á leikskóla.
Kristleifur Daðason sutt samtal á Kaffi Vest á þriðjudagsmorgni um búsetu á Hofsvallagötu í samanburði við búsetu í Kópavogi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.