Mig vantaði bók í gær (prentaða, ekki e-bók) og rölti því upp í bókabúðina hérna í bænum, þangað er tíu mínútna gönguleið. Í Espergærde búa um það bil 13.000 manns og hér er ein bókabúð sem er hluti af stærri keðju sem kallast Arnold Busck. Þetta er ekki sérlega góð bókabúð, það er svo sem engin sérstök sál í henni. Afgreiðslufólkið er bara í vinnunni sinni og ekkert ógurlega áhugasamt um bækur eða bókmenntir. Og er nokkuð sama þótt þau heyri um stórkostlegar bækur.
En mig vantaði sem sagt bók sem ég ætlaði að gefa Núma. Hann er veikur heima og ég var handviss um að hann mundi hafa mjög gaman af þessari stórfínu bók sem ég hafði í huga. Bókin mundi létta honum sinnið í veikindum sínum. Bóksalinn sem tók á móti mér, ung stúlka (ekki kæmi mér á óvart að hún væri nemandi í menntaskólanum og þetta væri vinnan hennar með náminu) var ekki sérlega vakandi yfir þessum eina viðskiptavini búðarinnar. Hún stóð bak við búðarkassann og það tók mig nokkra stund að ná athygli hennar þar sem hún var niðursokkinn í að skrifa einhverjum einhver mikilvæg skilaboð á símanum sínum. Ég tók mér stöðu við afgreiðsluborðið og fylgdist með henni einbeita sér að slá hratt á skjá símans. Hún hafði ljóst hár og óvenju síða og þykka fléttu sem lá eins og reipi niður eftir baki hennar. Mér kom í hug fjallaklifur þegar ég skoðaði þessa þykku fléttu og velti fyrir mér hvort ég ætti að klífa upp teinréttan hrygg stúlkunnar og komast alla leið upp á hálsinn til að sjá útsýnið þaðan. En skyndilega (þegar ég í huganum hafði fetað mig – með hjálp fléttunnar – hálfa leið upp hrygginn) leit hún upp og brosti. „Já,“ sagði hún.
Fyrir nokkrum árum, þegar ég var á ferðalagi um Kanada fékk ég sent handrit að minningabók frá umboðsmanni skáldkonunnar Tara Westover. Ég vissi ekkert um Tara Westover annað en það sem umboðsmaðurinn sagði mér; að hún hefði alist upp við mjög sérstakar aðstæður hjá heittrúuðum mormónum og hefði hvorki gengið í skóla né hlotið aðra menntun en hjá foreldrum sínum sem stöðugt undirbjuggu yfirvofandi heimsendi. Sjálf hafði hún síðar brotist út úr þessari vitfirringu fjölskyldunnar og komist til mennta. Hún hafði svo skrifað bók um líf sitt og þetta var fyrsta bók hennar og hún kallaði bókina EDUCATED eða MENNTUÐ.
Þegar maður er forleggjari fær maður ansi mörg handrit send. Vilji maður vera góður forleggjari þarf maður að vera fljótur að flokka hismið frá og einbeita sér að því áhugaverða. Stundum tekst það og stundum ekki. En í þessu tilfelli, með bók Westover, var ég fljótur að sjá að hér var á ferðinni eitthvað alveg sérstakt. Þetta var frábærlega áhugaverð bók, mjög vel skrifuð, fyndin og sorgleg. Ég sökk gersamlega niður í hana og vildi gera nánast hvað sem er til að fá danska útgáfuréttinn á bókinni. Ég lagði fram mjög hátt boð en ég var ekki nógu fljótur. Annar danskur útgefandi hafði verið sneggri en ég og hafði boðið svo stórar fjárhæðir í bókina, gegn því að hann fengi samstundis danska réttinn, að umboðsmaðurinn gat ekki annað en tekið því boði. Ég var miður mín í marga daga, sennilega margar vikur á eftir. Að fá slíkt handrit í hendurnar gerist í mesta lagi einu sinni á ári.
En ég sá að Benedikt er nú að gefa út þessa stórfínu bók MENNTUÐ út á íslensku og ég varð himinlifandi þegar ég sá það og fékk forleggjara Benedikts til að senda mér íslensku þýðinguna sem ég les um þessar mundir. Ég hlusta líka á ensku hljóðbókina þegar ég er úti að ganga. (Nú er ég sem sagt að þjálfa mig sem þýðanda.) Og þýðing Ingunnar Snæland er fyrirtak.
En þetta er sem sagt bókin sem ég vildi að Númi læsi í veikindum sínum og þess vegna fór ég úti í bókabúðina hér. Bókin var því miður ekki til á þessum bóksölustað því það er of langt síðan bókin kom út í Danmörku. Allar bókabúðir með sál hefðu haft þessa bók á boðstólum og starfsmennirnir hefðu andstuttir mætt nýjum viðskiptavini til að benda á þessa bók, mælt innilega með henni og hefðu ekki hætt að boða fagnaðarerindi sitt fyrr en þeir hefðu fylgt viðskiptavininum út úr bókabúðinni með að minnsta kosti eitt eintak í hendinni.
En slíkar bókabúðir vantar. Ég las grein um það að George R.R. Martin, höfundur Game of Trones hefði opnað bókabúð í heimabyggð sinni þar sem honum þótti vanta bókabúð fulla af andargift og gleði. Og það sama gerði skáldskonan Ann Patchett sem opnaði bókabúð í Nashville, Louse Erdrich, sem líka er skáldkona, opnaði bókabúð í Minneapolis, Judy Blume, enn önnur skáldkona, opnaði sína bókabúð í Flórída. Allar þessar bókabúðir eru sprottnar upp úr þörf fyrir bókabúðir sem sinna gleðinni og andanaum.
Slíka bókabúð vantar á Íslandi, bókabúð sem er eins konar 12 tónar bókanna. Ef ég ætti að veðja á eitt íslenskt skáld sem líklegt væri til að opna slíka bókabúð dettur mér ekkert í hug, en ef til vill væri vit í að splæsa saman Guðrúnu Evu sem hefur sálina en kannski lítið viðskiptavit (þetta er ágiskun), Óskari Árna Óskarssyni (sem hefur vit á fagurfræði bóka), Ragnari Helga (sem hefur viðskiptavit og sál) og Andra Snæ (sem bæði hefur viðskiptavit, markaðsvit, sölumennskuhæfileika og er líka bókasál). Þetta er ofurbóksali. Sennilega eru fleiri rithöfundar sem hafa þetta í sér að leggja sál í bókabúð en í fljótu bragði finn ég ekki nöfnin uppi í hausnum á mér.