Í dag hefur hringferð um Jótland verið á dagskránni. Sus þarf að sinna fjölskyldunni á Jótlandi og við fórum í smáhringferð til að fá meira út úr Jótlandstúr. Við ákváðum að að gista aukanótt á krá á Vestur-Jótlandi, Henne Kirkebykro. Þau á kránni, eru góð til að búa til góðan mat og þau kunna að gera kvöld að veislukvöldi. Laugardagskvöld var veislukvöld hjá okkur.
Í dag, eftir gistingu á Henne Kirkeby-kro, keyrðum við svo um Jótland, frá vestri til austurs, stoppuðum í Vejle til að skoða húsið hans Ólafs Elíassonar, Fjordshus. Mjög flottur arkitektúr. Ég varð mjög glaður að sjá húsið. Það er ótrúlegt hvað ég er orðinn uppveðraður yfir hinum minnstu tilburðum mannanna til að gera heiminn fegurri.
Sus varð eftir í Horsens til að aðstoða fjölskylduna. Við Davíð keyrðum heim til Espergærde í rigningu og myrkri. 350 km. Það var gott að hafa yngsta barnið mitt í framsætinu til að hjálpa mér í gegnum allt myrkrið og regnið sem steyptist niður af himninum. „Pabb, ertu vakandi,“ heyrðist af og til í gegnum tónlistina.
Ég heyrði um útnefningar til bókmenntaverðlauna í bókmenntum á Íslandi. Ég varð glaður að Bergsveinn skyldi fá tilnefningu. Ekki kæmi mér á óvart að hann ynni. Bókin hans er afrek. Ég varð leiður yfir að Eiríkur Guðmundsson skyldi ekki fá tilnefningu. En svona er smekkur fólks misjafn.