Það er ansi gott veður hér í Danmörku þessa dagana; sólin skín af heiðbláum himni, heimurinn lyktar af sumri og sláttuvélar og einshreyfilsflugvélar á flugi yfir bæinn skapa sumarlegt hljóðteppi. Það er líka heitt og því er það svo hér heima hjá mér að allar hurðir hússins eru nánast alltaf opnar upp á gátt. Og nú er ég einn heima.
Í gær hafði ég leitað inn í skugga hússins til að vinna þegar hringt var á dyrabjöllunni. Dyrnar voru opnar. Fram á gangi sá ég að maður stóð í gættinni og hélt á einhvers konar stöng, álstöng. Hann brosti þegar hann kom auga á mig en það hefði hann kannski átt að láta eiga sig því hann var sérlega illa tenntur; aðra framtönnina vantaði og hinar tennurnar í munninum á honum minntu mig einna helst á tuggið brauð. Ég reyndi að láta ekki á neinu bera en mig hryllti við þessu brosi. Fyrir utan tennurnar var þetta ósköp venjulegur maður um fimmtugt. Hann vildi fá leyfi til að taka mynd af húsinu mínu og við endann á þessari stöng, sem var örugglega fjögra metra löng, var myndavél. Þetta var sérútbúin myndavélastöng.
„Hvers vegna viltu taka mynd af húsinu mínu?“ spurði ég.
„Ég er að safna húsamyndum héðan úr bænum í gagnagrunn … má ég smella af?“
„Já, það er í lagi mín vegna.“
Ég fylgdist með honum út um glugga ganga hring í kringum húsið með myndavélina á stönginni. Hann horfði inn í einhvers konar skjá sem hann bar í ól um hálsinn svo skjárinn hékk í láréttri stellingu á maga mannsins. Eftir að hafa athafnað sig um stund renndi hann þessari löngu álstöng saman svo að hún varð ekki nema um metri að lengd. Það leit út fyrir að hann hefði lokið verki sínu og væri að pakka saman. Ég hélt satt að segja að þar með væru samskiptum okkar lokið og ég settist aftur við vinnu.
En nú var hringt að nýju á dyrabjöllunni og aftur stóð maðurinn í dyragættinni.
„Fyrirgefðu ónæðið en mig langaði að spyrja þig hvort þú hefðir áhuga á að kaupa mynd af húsinu þínu?“ Enn brosti hann þessu hryllingsbrosi og ég varð að stoppa sjálfan mig að líta ekki undan í skelfingu og taka fyrir augun. Á meðan hann beið eftir svari fór ég allt í einu að velta fyrir mér hvort hann gæti borðað með þessum tönnum og íhugaði að bjóða honum lakkríspípu til að komast að því hvort hann gæti tuggið.
„Hvað segirðu um það, að eignast glæsilega mynd af glæsilega húsinu þínu?“ sagði hann svo þegar ég lét standa á svari. „Sjáðu,“ sagði hann svo, „kíktu á myndirnar.“
Hann otaði skjánum að mér og ég skoðaði mynd af hvítmáluðu húsi. Þetta var heildarmynd af austurgafli hússins, þeim sem snýr að Svíþjóð. Neðst var ölítil ræma af skærgrænum grasfleti en svo tók hvítir húsveggir við með gluggum sínum og svölum. Efst sást nýmálaður skorsteinninn skaga upp í bláan himininn. Þegar ég skoðaði myndina betur sá ég skuggann af sjálfum mér, minn eigin skugga í einum af stofugluggum hússins. Ég varð hugsi yfir þessu að sjá mig þarna fyrir innan gluggann eins og draug. Maður verður óhjákvæmilega hugsi yfir þessu.
„Nei, takk, ég get bara sjálfur tekið mynd af húsinu mínu. Nema þú eigir mynd af mér þar sem ég stend uppi á þaki við nýmálaða skorsteininn með málningarrúllu á skafti í annarri hendinni. Slíka mynd mundi ég vilja kaupa.“
„Við getum alveg komið því í kring.“
„Nei, ekki núna. En takk samt.“