Morgunn í Hvalfirði. Bíll keyrði eftir þjóðveginum fyrir stundu. Eins og oft áður var það sendibíll. Alltaf eru það sendibílar sem eiga leið um Hvalfjarðarveg. Ég veit ekki hvað þeir sendast með, bílarnir, hvert erindið er. En augljóst er að þeir sem búa innar í firðinum nýta sér þjónustu sendibíla.
Ég íhuga að hlaupa síðar í dag og í mínum huga er hlaupaleiðin niður malarbrekkuna, meðfram þjóðveginum í átt til Saurbæjarkirkju, snúa við á kirkjuafleggjaranum og hlaupa til baka og enda á því að hlaupa upp hina bröttu brekku. Þetta munu vera um það bil 6 kílómetrar. Langhlaup, kallast þetta í mínum huga.
Hin athöfnin sem ég hef á aðgerðarlista dagsins er að klára að lesa hina furðulegu bók Dag Solstad sem ég er langt kominn með. Ég er mjög hrifinn en mig grunar að ekki margir aðrir séu um að hrífast af þessari óvenjulegu sögu.