Hvalfjörður. Útlendingar í vandræðum við þjóðveg

Það var vaknað óvenjusnemma í morgun enda þurfti Númi að ná flugvél til að fljúga aftur til Danmerkur. Þetta var stutt Íslandsstopp hjá Núma sem þarf að mæta aftur í vinnuna sína. Sennilega er hann þó kominn með nýja vinnu í London eftir marathon atvinnuviðtöl, gáfnapróf, persónuleikapróf og „case-tests“. Þau tíðindi fengu móðurina til að fella nokkur tár.

En þegar ég keyrði út Hvalfjörðinn í morgun á leið til Keflavíkur rifjaðist upp fyrir mér ævintýraför tveggja rithöfunda sem höfðu verið gestir bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þetta voru ágætir náungar og fyndnir, Nicholas Shakespeare, frá Englandi og Ástralinn Murrey Bail.

Ég átti á þessum árum gamlan Mercedes Benz-bíl, þungan sleða, sem ég lánaði þessum góðu mönnum sem langaði að komast út fyrir bæjarmörkin á meðan á hátíðinni stóð. Þeir keyrðu því á Benzbílnum síðdegi eitt upp í Hvalfjörð. Þar tókst þeim fyrir kraftaverk að festa þýska eðalvagninn á götuslóða sem lá að einhverri veiðiá. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að losa bílinn en á endanum gáfust þeir upp enda voru þeir að verða of seinir í móttöku til forsetans að Bessastöðum. Þeir flýttu sér því niður á Hvalfjarðarveg og náðu fljótlega að vekja athygli á sér og það var fyrir mildi miðaldra ökumanns að þessum úrvinda ferðalöngum sem voru komnir í mikla tímakreppu var boðið far. Um leið og ökumaðurinn bauð þeim að setjast upp í bílinn sinn benti hinn ástralski Murray á breska vin sinn: „This is my friend mr. Shakespeare and please bring us to the presedent.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.