Leiðir til að halda á sér hita á köldu veitingahúsi

Ég fékk mér sæti inn á veitingastað sem kallar sig LA-LA-LA í gærkvöldi. Kaupmannahöfn. Það var kalt úti og líka inni því veitingasalurinn var glerskýli og þrjár hurðir á þessum litla sal, þar sem flest borð voru setin, voru opnar svo kaldur hafgusturinn blés inn á matargesti. Hljómburðinn í glerhýsinu var óvenjuvondur; öll hljóð köstuðust af glerveggjunum, glerloftunum, steingólfinu og hrærðust saman í eina stórkostlega hljóðflækju. Það þurfti einbeitingu til að eiga samtal þarna inni. Borðið sem ég sat við var illa skrúfað saman, var óstöðugt og ruggaði undir matardiskunum. Það gæti án efa hafa verið betur vandað til smíðinnar.

Um margt annað má segja það sama og um borðsmíðina;  án efa væri hægt að vanda betur til ýmissa verka í þessum góða heimi sem stundum er á blámörkum þess að funkera. Svo lengi sem karlinn tengist konunni og skynsemin trúnni og hinir vondu draumar haldast í hendur við skikkanlega vinnu ætti þetta allt að ganga.

Ég hafði setið um stund og velt fyrir mér leiðum til að halda á mér hita þegar andspænis mér settist minn góði vinur Anders Klarlund. Hann hafði fengið nýja hárgreiðslu og var klæddur í fínni föt en venjulega. Hann varð angurvær á svipinn þegar ég spurði hann af hverju hann væri svona fínn. „Af því ég er að hitta þig,“ sagði hann og glotti. „ég er í góðu skapi, ég ilma og ég vil fá að borga í kvöld.“

Anders er einn af fáum sem þorir að skemmta sér við að segja órétta hluti og meina þá hálft í hvoru. Hann verður fljótt óvinsæll í röngum félagsskap. Ég hef gaman að honum, hann er gáfaður. Hann eyðir ekki tímanum í að segja sjálfsögð sannindi, orða sjálfsagðar hugsanir sem hafa verið hleypt í gegnum munninn á svo mörgum, svo mörgum sinnum áður. Hann gengur óhræddur á móti straumnum og lætur engan hræða sig frá því að orða sínar ögrandi hugsanir. Enda á hann sér marga fjandmenn.

Við hliðina á mér sat svo hin villta konan hans, Joy. Hún leynir á sér. Allt í einu er hún komin á samning hjá Gyldendal og bókin hennar sem hún hefur pukrast við að skrifa á að koma út í sumar. Hún er fyndin.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.