Norski vaðfuglinn er tíu ára

Fyrir nákvæmlega tíu árum ákváðu Karl Ove Knausgaard og bróðir hans Yngve Knausgaard að stofna bókaforlagið Pelikanen. Pelikanen gefur meðal annars út Bergsvein Birgisson, Peter Handke og sjálfa Judith Hermann í Noregi. Í tilefni af afmælinu voru forsvarmenn forlagsins spurðir um framtíðina og það var heldur þungt hljóð í þeim félögum. Töldu þeir framtíð minni forlaga vera í töluverðri hættu vegna þess hvernig útgáfumarkaðurinn hefur þróast á síðustu árum og  vegna breyttra lestrarvenja  bókelskenda sem í auknum mæli halla sér að áskrift að streymisveitunum og hljóðbókaframboði þeirra. Streymisveiturnar fá því æ stærri hlutdeild í tekjum bókamarkaðarins. Í Noregi eins og í flestum löndum eru streymisveiturnar að hluta til eða alveg í eigu stóru forlagana og hafa þau afgerandi áhrif á hvaða bækur streymisveiturnar ýta að lesendum. Á Íslandi er Storytel sjálfstætt félag en er smám saman að verða stærsti aðili íslenska bókamarkaðarins.

Fyrr í haust ákvað Stefán Hjörleifsson að hætta sem stýrimaður Storytel en hann hefur stýrt skútunni frá upphafi. Nokkrar vangaveltur eru um hver taki við keflinu af Stefáni. Ég hef enga hugmynd um hver sé líklegur til að  koma í stað Stefáns en nýr forsvarsmaður Storytel verður án efa ein af áhrifamestu persónum íslenska bókabransans og þar að auki sjálfkrafa stjórnarmaður í Félagi íslenskra bókaútgefenda.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.