Saga á 112 prentuðum blaðsíðum verður að kvikmynd 136 árum síðar

Á morgun þann 8. nóvember á Kazuo Ishiguro (bresk-japanski rithöfundurinn) afmæli. Ég ætla að senda honum afmæliskveðju. Það geri ég alltaf þegar ég man eftir afmæli hans. Mér finnst hann eigi það skilið að ég sendi honum kveðju mína. Hann er sá rithöfundur sem ég met einna mest af öllum heimsins rithöfundum og því ætti öllum að vera augljóst hvers vegna ég hugsa til hans á afmælisdegi hans og reyni að gleðja hann með stuttri kveðju.

Nú kemur dálíið merkileg slaufa. Í gærkvöldi varð mér hugsað til Ishiguro án þess þó að einbeita mér að því sem gekk á í hausnum á mér. Samtímis flögraði hugurinn til Tolstoj og bókarinnar Dauði Ivan Iljitjs. Það var árið 1886 að Leo Tolstoj skrifaði bókina Dauði Ivan Iljitjs. Þetta er stutt og mögnuð saga, einungis 112 síður á prenti, en nógu löng og áhrifamikil til að Akira Kurosawa ákvað næstum níutíu árum eftir útkomu bókarinnar að gera kvikmynd byggða á sögunni. Kvikmyndin Ikiru var frumsýnd árið 1952.

Árið 1972 settist Ishiguro, þá 18 ára gamall inn í lítinn kvikmyndasal í London þar sem sýna átti kvikmynd Kurosawa, Ikiru. Í stuttu máli breytti þessi kvikmyndasýning að suman hátt lífssýn Ishiguros. Sagan vék ekki frá honum og eftir að hann lauk við síðustu bók sína Klara og sólin ákvað hann að hefjast handa við að skrifa kvikmyndahandrit byggt á sögu Tolstojs, Dauði Ivan Ilijitjs og endurgera kvikmynd Kurosawa Ikiru sem einmitt er byggð á sömu sögu.

Kvikmyndin Living, en svo heitir kvikmyndin sem Ishiguro hefur skrifað handritið fyrir, var frumsýnd þann 4. nóvember og hefur fengið stórkostlega dóma kvikmyndagagnrýnenda.

ps. Ég les bók Antony Beevor um síðari heimsstyrjöldina af nokkru kappi þessa dagana. Í rauninni af svo miklum ákafa að ég hef fundið fram landabréfabók Máls og menningar til að fylgjast með framvindu stríðsmála á kortinu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.