Vico del Gargano. Landeigandinn les bækur

Ég er ekki ítalskur en ég á land á Ítalíu og því fylgja ólífutré. Ég heyri að menn vilja ekki að útlendingar eigi land á Íslandi eða kannski misskil ég eitthvað. Sennilega er það svo að menn vilja ekki að allir útlendir menn eiga land á Íslandi. Mér skilst að það sé í lagi að eignast land sé maður blankur útlendingur en það er ekki í lagi ef það séu peningar á bankareikningi útlendingsins sem hefur áhuga á að kaupa land. Ég er ekki alveg viss um að ég skilja hvenær útlendingahatur eigi við, hvenær eiga fordómar við, hatur á ákveðnum hópum samfélagsins eiga við og hvenær ekki á Íslandi.

Nafnorðið auðmaður er íslenskt skammaryrði, notað yfir menn (oftast karlmenn) sem hafa af einhverjum ástæðum eignast mikla peninga. Oft vekur peningaeign þeirra bæði öfund og aðdáun en stundum önnur fjandsamleg viðbrögð. Engu skiptir hvort peninganna sé aflað með lögmætum eða ólögmætum hætti, með skúrkshegðun, dugnaði, snilld, gáfum, atorkusemi, óbilgirni, harðsækni, svindli, nirfilshætti …

Ég held að umræðan ætti frekar að snúast um hvernig nýting þessara nýkeyptu jarða er, sambýli og umgengni við náttúruna, nýtingu hlunninda, uppbyggingu og viðhald … frekar en að að það skipti máli hvort kaupandinn sé útlendur eða íslenskur, ríkur eða fátækur…

En í gær íhugaði ég í fyrsta sinn að selja landið í kringum La Chiusa hér á Ítalíu – ekki vegna útlendingaumræðunnar á Íslandi, ég gef frat í hana – heldur fékk ég þá flugu í höfuðið að Ítalíutímabili mínu sé lokið. Það er kannski komið að næsta kafla.

Eins undarlegt og það kann að hljóma hitti ég mann á tennisvellinum í morgun sem vildi jafnvel kaupa jörðina af okkur – hann er danskur og heyrði okkur tala saman á dönsku. Hann virtist vita margt um okkur; hvar húsið okkar var, hve lengi við hefðum verið hér o.s.frv. Mitt í spjallinu við þennan danska mann lýsti hann yfir áhuga á að kaupa hús og jörð hér á Ítalíu. Þetta þótti mér sérkennileg tilviljun. Við gáfum svo sem ekkert út á áhuga hans því enginn í fjölskyldunni hafði rætt þann möguleika á að selja. Ég hafði bara velt landssölu fyrir mér í gær og í morgun, án þess að viðra hugmyndina við aðra fjölskyldumeðlimi. En sem sagt maðurinn kemur í heimsókn í vikunni og kíkir á höllina. Ég veit ekkert hvort maðurinn er blankur eða ríkur og satt að segja er mér alveg sama. Hann leit ekki út fyrir að vera auðmaður, en þeir eru lúmskir, auðmennirnir.

En ég spæni mig í gegnum bækur þessa dagana. Hef klárað bók Jo Nesbøs, hef klárað bók eftir Idu Jessen og er nú að lesa bók Hiromi Kawakami, The Ten Lovers of Mr. Nishino.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.