„Við erum þrír.“

Þann 7. september, það er að segja eftir rúma viku, kemur út þriðja bók írska rithöfundarins Sally Rooney. Bókin hefur fengið titilinn Beautiful World, Where Are You. Bókarinnar er víða beðið með mikilli eftirvæntingu. Nú þegar hafa birst stór viðtöl við hinn unga höfund (Sally er 30 ára) bæði í The Guardian og The New York Times um bókina og ritferil Sally.

Einhvern tíma sagði ég að ég hefði á tilfinningunni að Ellena Ferrante (ítalskur rithöfundur) höfðaði frekar til kvenna en karla og fékk skammir í hattinn fyrir að setja fram slíka tilgátu. Konur virðast þar að auki hafa miklu meiri áhuga á bókmenntum en karlar. Ég hef sótt dagskráratriði á Louisiana-bókmenntahátíðinni sem nú er nýlokið. Margt hefur verið um manninn á Louisiana, nánast hvert sæti upptekið við þá dagskrárliði hátíðarinnar sem ég hef mætt til. Þegar ég fylgdist með samtali sænska höfundarins Lydiu Sandgren við danskan bókmenntaspekúlant sat gráhærður maður með konu sinni á bekk fyrir aftan mig. Rétt áður en dagskráin hófst fann ég að það var pikkað í bakið á mér. Ég sneri mér við. Maðurinn hallaði sér brosandi fram og hvíslaði:
„Við erum þrír.“
Ég vissi ekki hvað maðurinn átti við svo ég hváði.
„Já, við erum þrír. Þrír karlar en meira en hundrað konur.“ Hann brosti og hallaði sér aftur til baka.
Ég leit í kringum mig og sá maðurinn hafði rétt fyrir sér. Við vorum þrír karlhólkar, á meðal allra þessara kvenna, sem höfðum áhuga á að hlusta á sænsku skáldkonuna Lydiu Sandgren.

Ég hef lesið báðar bækur Sally Rooney og mér hafa fundist þær fínar án þess að ég falla á hnén af hrifningu. En svo sé ég að sjálfur höfundurinn, Sally, heldur því fram í viðtölum að hún telji að bækur sínar tali fremur til kvenna en karla. Kannski hefur hún rétt fyrir sér.

En Sally er orðin fræg, mjög fræg, fyrir bækur sínar. Svo fræg að henni finnst það nær óbærilegt. Hún á svo sannarlega erfitt með að skilja fólk sem sækist eftir frægð og segist hefði gert margt til að forðast frægðina hefði hún vitað hvaða afleiðingar frægðarstaða hennar hefur haft á líf hennar. Það hefur tekið hana fjögur ár að skrifa þessa nýju bók og sem hún var farin að efast um að hún gæti nokkurn tíma skrifað. Það er hinn sálfræðilegi tollur af frægðinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.