Af afleiðingum þess að segja frá draumum sínum.

Þýski heimspekingurinn Walter Benjamin kynntist lettneska byltingarsinnanum Asja Lâsis á ferðalagi um ítölsku eyjuna Capri og hófu þau þar eldheitt ástarsamband. Walter Benjamin var þá giftur Doru Sophiu Kellner. Í nokkur ár eftir dvölina á Capri heimsótti Benjamin ástkonu sína af og til í Moskvu þar sem hún var búsett. Snemma morguns í síðustu heimsókn Benjamins sótti á hann knýjandi þörf til að segja Asja frá næturdraumum sínum.
„Nei, mig langar ekki að heyra um drauma þína,“ sagði Asja þegar hann byrjaði frásögnina en hann hlustaði ekki og hélt áfram þar til  hún greip aftur fram í fyrir honum. „Segðu mér heldur að þú ætlir að skilja við Doru. Það er minn draumur.“
Þau þögnuðu bæði, lágu hlið við hlið í tvíbreiðu rúmi inni í litlu herbergi í Moskvu og „andrúmslotið var þurrt eins og vikugömul rúgbrauðsskífa,“ svo notuð séu orð Walter Benjamin um þennan morgun.

Walter Benjamin og Dora skildu nokkrum mánuðum síðar – það var ljótur skilnaður – og Asja giftist öðrum Benjamin. Benjamin Reich.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.