Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar. Með þessi orð í huganum vaknaði ég og settist fram á rúmbríkina. Klukkan var ekki margt en ég sá að sólin var rétt komin upp yfir sjónarröndina. Allir í húsinu hér í suður Frakkalandi sváfu. Ég heyrði svefnhljóðin í gegnum þunna veggina. Ég stóð á fætur og leit út um svefnherbergisgluggann og virti fyrir mér seglbátana vagga í morgunkyrrðinni fyrir utan ströndina. Það var mistur yfir Miðjarðarhafinu.
Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Þetta hugaði ég á meðan ég horfði út á hafið. Þú ert flókin sál, Snæi minn, sagði ég svo við lágt við sjálfan mig til að vekja ekki hina sofandi. Ég hristi höfuðið.
Við dveljum í stóru húsi með sundlaug hér í einni af fjallshlíðum Suður-Frakklands; í litlum bæ sem kallast Cavalaire-sur-Mer. Nágrannar mínir frá Søbækvej dvelja í húsinu með okkur og því erum við átta saman. Það vantar Núma sem er á interrailferðalagi (síðast þegar ég heyrði í honum var hann í Madrid). Stundum dreg ég mig í hlé frá mannfjöldanum og geng einn upp hlíðina og enda uppi á hæsta punkti þessa litla bæjar. Þetta er ekki sérlega löng ganga en göturnar eru brattar. Hér er ekki sála úti við, enginn á göngu og ég mæti aldrei bíl þegar ég geng upp hlíðina. Á toppnum er útsýnispallur þar sem bæjarstæðið, ströndin, höfnin og hafið blasa við. Aldrei hef ég hitt nokkurn mann þarna við þennan fína útsýnisstað. Ég sit yfirleitt stutta stund, hlusta á sönginn í engisprettunum og nýt þess að hafa heiminn fyrir sjálfan mig.

ps. Nú les ég Jo Nesbø, nýju bókina hans. Kniv. Ef ég væri glæpasagnahöfundur mundi ég taka hann mér til fyrirmyndar. Hann er sá besti í faginu… ja, hann og Håkan Nesser.