Chamonix. Enid Blyton metsölubók

Það var eins og að vakna mitt inni í Enid Blyton sögu í morgun. Ilmurinn af nýbökuðu brauði og ávaxamauki smaug inn í hvern krók og kima hússins á meðan regnið lamdi rúðurnar. Ég tók mér því góðan tíma til að vakna. Lá bara og hlustaði á regnið berja húsið að utan og hugsaði um hvort ég ætti ekki að skrifa skáldsögu í anda Enid Blyton. Það yrði sko metsölubók. Titill: Enid Blyton metsölubók. Á neðri hæðinni heyrði ég raddir þeirra sem voru komnir á fætur. Það var lagt á morgunborð.

Ég hef verið latur undanfarna daga að svara tölvupóstum þannig að ég fór yfir það í huganum hverjum ég ætti eftir að svara og hverju ég vildi svara þeim sem höfðu skrifað mér síðustu daga. Í gær pantaði ég flugferð til Íslands svo nú get ég klárað þau erindi sem ég á við mitt íslenska fólk augliti til auglitis.

Í dag er föstudagur og síðasti dagur sumarfrísins. Í fyrramálið leggjum við af stað í langan bíltúr í gegnum Evrópu; Frakkland, Sviss, Þýskaland, Danmörk. Kannski komum við heim annað kvöld, kannski á sunnudaginn. Það fer eftir því í hvaða stuði ég verð að keyra á morgun. Ef ég verð þreyttur, gistum við einhvers staðar í Þýskalandi.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.