Ho. Sestur á skrifstofustólinn á forlagskontórnum. Enginn er mættur svona snemma morguns, þó erum við 5-7 sem vinnum hérna í gömlu lestarstöðinni í Espergærde. Jesper í skrifstofunni á móti hafði boðað komu sína klukkan átta en hann er ekki kominn og klukkan er níu mínútur yfir átta.
Að vinna við bókaútgáfu er góð skemmtun. Fyrir framan mig liggja haugar af verkefnum sem hafa safnast saman þær sex vikur sem ég hef verið í sumarfríi. Það eru margar bækur á leið í prentun. Ég hef undanfarna morgna freistast til að byrja á því að vinna í stað þess að skrifa í dagbókina. Það þýðir að ég skrifa ekki þann daginn.
Ég fékk tölvupóst frá ágætum manni sem ég þekki á Íslandi. Hann sagði orðrétt: “Er það rétt sem ég heyri að þú ætlir aftur að fara að gefa út bækur á Íslandi? Hvernig dettur þér það í hug? Þetta er land Sigmundar Davíðs! Hér lifir liststarfssemi við opinberan fjandskap. Til að starta bókaútgáfu þarftu að minnsta kosti 150 milljónir.”
Já, hvernig ætti mér að detta það í hug?
- Færri bækur seljast ár hvert. Þetta gildir ekki bara á Íslandi. Sömu sögu er að segja um Damörku. Um það bil 10-20 bækur ár hvert geta talist metsölubækur og það er gaman að vera útgefandi ef maður er svo heppinn að hafa rambað á að gefa þær út. Metsala í Danmörku er 30.000 til 200.000 bækur. Slík sala gefur góðar tekjur fyrir forlagið. Af þeim þúsundum bóka sem koma út hér í landi eru sem sagt bara tíu eða tuttugu sem seljast í stóru upplagi. Hinar þúsund bækurnar seljast hlægilega lítið. Ég talaði við ágætan mann, útgáfustjóra fagurbókmennta hjá einu af stóru forlögunum og hann sagði mér frá stöðunni á bókamarkaðinum út frá hans forlagi. Hann gaf út þekktan danskan rithöfund síðastliðið haust. Þetta var þriðja skáldsaga höfundar. Fyrri bækur hennar hafa fengið feykigóðar viðtökur. Þessi bók sem kom út síðasta haust fékk svo góða dóma að eftirtekt vakti. Fimm og sex stjörnu dómar fylltu dagblöðin. Auk þess voru birt mörg viðtöl við höfundinn, bæði í dagblöðum, tímaritum og í útvarpi. Í Danmörku hefur höfundurinn svipaðan status og segjum Guðrún Eva hefur á Íslandi. Svo kemur hið óvænta. Bókin seldist í 302 eintökum. Forlagsstjórinn gat nefnt fleiri slík dæmi. Sala á bókum sem ekki komast á metsölulista er hverfandi, þetta gildir á Íslandi og þetta er veruleikinn í Danmörku. Þetta er þróunin sem ungir höfundar þurfa að horfast í augu við. Höfundalaun fyrir sölu á 302 eintökum er rúmar 300.00 islenskar krónur. Að skrifa skáldsögu tekur ekki minna en eitt ár.
- Bókaverð hefur staðið í stað frá árinu 2003. Þegar ég byrjaði að gefa út bækur í Danmörku árið 2003 var verðið sem ég setti á þýdda glæpasögu 299 DKK sem jafngildir 6000 ISK. Í dag 13 árum seinna kostar samskonar bók, þýdd glæpasaga, 299 DKK. Það sama gildir um fagurbókmenntir. Árið 2003 kostaði 300 síðna bók 299 DKK. Í dag kostar bókin 299, eða 249 DKK eða jafnvel 199 DKK. Verð á bókum lækkar eða stendur í stað á meðan allur kostnaður við útgáfu bóka hækkar jafnt og þétt. Þýðendur fá hærri laun, prentun er dýrari, auglýsingar eru dýrari, auglýsingagerð er dýrari, laun starfsfólks eru hærri. Sömu sögu er að segja um verð á bókum á Íslandi. Verð á bókum lækkar. Einu sinni var hægt að gefa út þýdda skáldsögu innbundna með kápu. Í dag koma slíkar bækur nær eingöngu út sem kiljur fyrir helmingi lægra verð. Allur kostnaður við útgáfu bókarinnar er sá sami nema prentverðið er örlítið lægra.
- Þótt bókaforlag haldi markaðshlutdeild sinni eru tekjurnar minni og kostnaður hærri ár eftir ár.
Það er von að maðurinn spyrji hvort ég hafi áhuga á að gefa út bækur í Íslandi.