Í gærkvöldi þurfti ég að vinna fram á miðnætti. Mér tókst ekki að ná settu marki í gærdag; ég náði sem sagt ekki að uppfylla þau markmið sem ég hafði sett mér á skrifstofutíma. Eiginlega skelli ég skuldina á sjálfa skrifstofuna sem ég sit á. Hér verður gífurlega heitt þegar sólin skín og ef ég opna glugga er svo mikill hvínandi hávaði frá byggingarframkvæmdunum hér handan götunnar. Hins vegar er skrifstofan bara einn salur, ægilega fínn með parketi á gólfum, gler og stál á veggjum og tröppum. Þetta er svo sem ekki umhverfi sem ég sækist eftir en framboðið af leiguplássi í göngufæri frá heimilinu er ekki sérlega mikið. Í þriðja lagi þarf ég að hlusta á félag minn hér á skrifstofunni tala í síma og hann talar mikið í síma þegar hann sest við skrifborðið sitt. Ég hef velt því fyrir hvað ég get gert. Ég hef meira að segja kíkt á bókasafnið hér í bænum en þar er vinnuaðstaðan ekki góð. Hér eru kaffihúsin heldur ekki þannig að maður telji sig getað sest þar til að vinna, þótt ég minnist þess frá Parísardögum mínum að ég á auðvelt með að vinna í kaffihúsaumhverfi. Þar er hávaðinn einhvern veginn bara örvandi. Ég er því í smá vandræðum því ég verð óeinbeittur þegar ég hef það ekki gott líkamlega (of heitt, of loftlaus eða truflaður af óæskilegum hljóðbylgjum).
Ég mætti óvenju snemma til vinnu í morgun, það er að segja áður en sólin náði að skrúfa hitastigið á skrifstofunni upp í bakaraofnshitastig. Þegar ég geng þessar tólf mínútur frá heimili mínu og til vinnu hlusta ég venjulega á eitthvað í gegnum símann minn. Ég er næstum búinn að hlusta á Hallgrím lesa bókina Sextíu kíló af sólskini. Það er gaman að hlusta á Hallgrím, hann er góður lesari, en það er með þessa bók eins og margar aðrar bækur sem ekki eru drifnar áfram af plotti eða spennandi söguþræði (sumum finnst söguþráður skammaryrði en það finnst mér hrósyrði) þá getur maður hætt hvar sem er og ekkert sérstakt sem kallar á mann að halda áfram þegar maður hefur fengið sinn skammt. Það er fínt að hlusta á söguna hans Hallgríms en ég hef hlustað á lesturinn í 14 klukkutíma og ég veit ekki hvort ég eigi að hlusta á bókina í tvo tíma til viðbótar bara til að klára að hlusta, það breytir engu í mínum huga hvort ég heyri sögulok.
Ég hlusta líka á Lestina hans Eiríks og Önnu Gyðu. Það er oft gott, fín umfjöllun sem getur vakið áhuga minn en stundum nær efnið ekki að kveikja á neinu; pistlahöfundarnir eru mjög misgóðir og ef ég á að vera heiðarlegur á ég erfitt með að hlusta á flesta myndlistarmenn útskýra verk sín. (Þá hugsa ég af og til þá ljótu hugsun: það er sennilega offramboð af myndlistarmönnum á Íslandi). Ég hlusta stundum á podcast frá New York Times Book Review sem getur verið stórskemmtilegt. En í dag hafði ég barnabók eftir Frank Cottrell Boyce í framúrskarandi góðum lestri í eyrunum. Ég er nefnilega áskrifandi að Audible frá Amazon og get valið mér eina bók á mánuði til að hlusta á. Þessi bók varð af einhverjum ástæðum fyrir valinu þennan mánuð þar sem ég er áhugamaður um góðar barnabókmenntir.
Til heiðurs félaga mínum sem berst fyrir minni útleiðslu Co2 tók ég saman Co2 mengun mína í gær, 13. maí. Hver dagur er öðrum líkur og því er þetta nokkurn veginn dæmigerður neyslu- og mengunardagur hjá mér.
- Ég eldaði 30 g af hafragraut í morgunmat (rafmagn) hafrarnir eru danskir.
- Borðaði ólífuolíu (í morgunmat) af eigin trjám (sem ég flutti með bíl frá Ítalíu. En ég var hvort eð er á ferðinni svo olían fékk að fljóta með.)
- Hádegismatur: (gekk frá skrifstofu og heim og aftur til baka) Danskt grænmeti ræktað í Humlebæk sem er 3 km frá heimilinu: kál, rauð paprika, ostur (mengun) linsoðið egg (rafmagn) ólífuolía (eigin framleiðsla, allt unnið með handafli og ekkert eitur).
- Ég hlustaði nánast allan daginn á Spotify við vinnuna í gær. Spotify notar töluverða orku til að kæla niður tölvuver sín til að ég geti hlustað á tónlist.
- Ég drakk 3 kaffibolla (svona er nú komið fyrir mér. Ég hef minnkað kaffineysluna umtalsvert). (Baunirnar koma frá S-Ameríku. Vöruflutningar).
- Ég hafði kveikt á tölvunni minni allan daginn á meðan ég vann. (Rafmagn.)
- Einfaldur kvöldmatur, engin rafmangsnotkun. Brauð (kornrækt mengar) með túnfisksalati. (Túnfiskveiðar menga) Þar að auki fékk ég mér einn mola (10 g) af súkkulaði. Ég sá að súkkulaðið var flutt alla leið frá Sviss (vöruflutningar).
- Ég keypti ekkert í gær. Keyrði ekki bíl. Ég gekk 14333 skref.
- Í gærkvöldi hafði ég kveikt á tölvu fram á miðnætti á meðan ég vann og las svo af iPad upp í rúmi eftir að ég háttaði í um það bil klukkutíma. (Rafmagn). Sennilega ætti ég að setja upp sólarrafhlöður á húsið mitt þá mundi ég sennilega ekki eyða neinu rafmagni.
Þegar ég lít yfir Co2-daginn hjá mér (þetta var ekki óvenjulegur dagur) get ég ekki sagt að daglega sé ég mikill mengunarþrjótur. Hins vegar ferðast ég meira en margir aðrir og þar liggja mínar stóru syndir. Ég bíð eftir að þoturnar verða knúnar áfram af rafmagni eða vetni. Ég treysti á að flugiðnaðurinn hafi svo gott tæknifólk að það geti fundið lausn á mengun flugvéla. Mér finnst ég nokkuð háður því að koma til Íslands til að hitta fjölskyldu mína og vini. Ekki get ég róið á árabáti þessa leið þótt ég hefði gaman að því.
ps. ég á bókaðan tennisleik í sólinni í dag eftir vinnu á móti duglega manninum. Nú verð ég að vinna og hef ákveðið tvennt. Ég spila upp á að gera ekki mistök, spila öruggt og leiðinlega en hins vegar ætla ég að vera aggressívur, spila boltanum djúpt (langir boltar að endalínu og ýta andstæðingnum aftur á bak) og sækja fram til netsins. Góð taktík.