Espergærde. Ævisöguritarinn gengur yfir götu

Við Númi erum einir heima þessa dagana. Sus og Davíð fóru til Jótlands að kíkja á foreldra Sus. Við drengirnir borðum svokallaðan herramat hér og höfum það gott. Annars var ég í hálf furðulegu stuði í gær.

Mig langaði allt í einu svo að skrifa ævisögu (eða heitir það kannski enn samtalsbók) Pep Guardiola með áherslu á sabbatárið í New York. Ég veit ekki einu sinni hvort hann sé áhugaverður maður að tala við, Pep. En í gær var ég handviss um að ég mundi geta skrifað gífurlega skemmtilega bók um frægan knattspyrnuþjálfara. Mig langar  að kynnast þessu lífi að vera knattspyrnustjóri; ég hef brennndi áhuga á fótbolta. Mér finnst fótbolti svo fallegur að horfa á og ég segi bara eins og Jónas Árnason sem uppgötvaði gleðina við að horfa á fótboltaleik þegar hann var kominn á efri ár. „Að horfa á fótbolta er eins og að horfa á hinn fegursta ballet.“   Ef ég tæki að mér að skrifa um knattspyrnustjóra mundi ég sameina tvö af stærstu áhugamálum mínum: bókmenntir og fórbolta. Yo!

Annars bauðst mér vinna um daginn hjá Politiken við að sjá um fótboltabækur fyrir forlagið. Nei, takk sagði ég. Ég hef ekki lengur áhuga á að vinna á forlagi.

Í gær tók ég góðan sprett í vinnu minni fyrir verkefnið Fellibylurinn Betsy. Ég hef verið fálmandi og fálma enn með það  hvernig ég eigi að nálgast verkefnið. Ég á að skila af mér í byrjun næsta árs svo ég er ansi seinn, en nú tek ég þetta föstum tökum.

Í gær var ég skammaður af manni og það þótti mér fyndið. Ég var á leið út í búð og þurfti að fara yfir götu. Það var svo gott veður, stillt og fallegt, að ég naut þess að rölta undir hinum bláa himni. Gott ef ég sönglaði ekki sálm á göngu minni. Það eru umferðarljós við gatnamót og þar get ég gengið yfir götuna til að komast í búðina, en ég sá að göngukallinn var rauður og það streymdu bílar eftir götunni svo ég komst ekki yfir. Ég gekk því lengra niður götuna og skundaði yfir götuna um það bil 30 metrum fyrir neðan umferðarljósin þegar ekki voru fleiri bílar á ferð. Svo lallaði ég í rólegheitum á gangstéttinni hinum megin götunnar á leið minni í búðina. Skyndilega heyri ég hróp og köll og sá að eldri hjón á Suzuki jeppa höfðu hægt ferðina og skrúfað niður rúðuna farþegameginn í Suzukibílnum til að ökumaður bílsins gæti hrópað á mig. Í fyrstu heyrði ég ekki hvað hann vildi en smám saman rann það upp fyrir mér að hann var svo agalega ósáttur við að ég skyldi ganga yfir götuna þar sem ekki voru umferðarljós. Og maðurinn var bálreiður og kallaði mig öllum illum nöfnum. Ég svaraði engu og hélt bara göngu minni áfram eins og ekkert hefði í skorist. Ég var meira að segja í fínu leðurskónum mínum og  var því allur frekar virðulegur. Kannski hef ég glott aðeins því maðurinn rauk  upp og náði ekki upp í nef sér fyrir bræði. Ég var ekki að hæðast að manninum, ég var eignlega svolítið hissa á þessu.

Lífið er bara miklu meira virði ef ævistundirnar eru notaðar í gleði og góð orð. Það hefði ég átt að segja þessum óánægða Suzukieiganda.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.