Espergærde. Bara ef ég gæti.

Þótt ég hafi enga ástæðu til að kvarta, vera óánægður eða vansæll því í sannleika sagt gengur allt mér í haginn. Svona í samanburði við heiminn. En ég vaknaði í morgun eftir enn eina nótt með slæmar draumfarir. Það sækja á mig þessar leiðinlegu hugsanir sem ég melti í hálfvöku. Æ, hvað þetta er pirrandi. Mig grunar hvað angrar mig, eða ég tel mig vita það. Ég er að eðlisfari glaðsinna en eiginlega borðaði ég hafragrautinn minn í morgun með tárin í augunum. ég var eitthvað svo vansæll. En á sama tíma fannst mér ég ekki á nokkurn hátt geta leyft mér þetta volæði og ég barðist við að hressa mig við um leið og ég kláraði af disknum og drakk kaffið mitt.

Já, hvað angrar þennan langa Íslending? Um það hugsaði ég á hlaupinu í morgun. Ég lét kuldann og rokið ekki á mig fá heldur hljóp langt, á móti vindi og yfir svelli lagða stíga og niðurstaðan var alltaf sú sama: Ég efast um það sem ég skrifa. Mér finnst ég ekki hafa fundið hinn rétta tón og ég er hræddur um að verða fórnarlamb eigin meðalmennsku. Ó, hvað mig dreymir um að skrifa nýja Önnu Karenínu, annan Harry Potter eða bara að skrifa jafn vel og Ishiguro. Af sama léttleika og af sömu andargift. Bara ef ég gæti!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.