Í dag er dagur svefnsins. Ég veit ekki hver ákveður að 10. mars skuli vera dagur svefns, en það er hann, dagurinn. Kannski eru aðstæður til að sofa sérlega hagstæðar þennan dag. Þrátt fyrir þann heiðurssess sem svefninn hefur fengið þann 10. mars svaf ég óvenju illa í nótt. Ég vaknaði um miðja nótt og fór að hafa áhyggjur af því hvort ég hefði týnt veskinu mínu (þetta voru óþarfa áhyggjur því ég fann veskið strax þegar ég fór á fætur í morgun.) Þegar veskið var komið í leitirnar og ég búinn að drekka fyrsta kaffibolla dagsins niður í eldhúsi hafði ég samband við einn af mínum gömlu félögum og spurði hann, í tilefni dagsins, hvernig hann hafði sofið. Svarið kom um hæl: „Stopult.“ Þessi dagur virðist sem sagt ekki vera neinn sérstakur success fyrir hinn góða svefn.
Í myrkrinu í nótt þegar ég lá andvaka á degi svefnsins komu óvænt í huga mér tvö orð sem mér fannst ég þurfa að veita meiri athygli: Orðin draumar og gleymska. Sennilega komu þessi tvö orð í huga mér því ég hafði lesið viðtal við bandarísk/norsku skáldkonuna Siri Hustvedt þar sem hún talar um minningabækur hálflanda síns Karl Ove Knausgaard og segir fólki að það skuli ekki láta blekkjast, flest sem Karl Ove skrifar um sjálfan sig er meira eða minna skáldskapur, enginn hafi svo gott minni að geta skrifað í slíkum smáatriðum um löngu liðna atburði. Þessi hugsanakeðja leiddi mig í fyrsta lagi til þeirrar staðreyndar að Karl Ove er nýbúinn að senda frá sér nýja bók sem mig langar að lesa: Um að skrifa heitir bókin. Og þetta fékk mig í öðru lagi til að hugsa um tölvupóst sem ég fékk fyrir nokkrum vikum sem meðal annars geymdi ljósmynd af Karl Ove og læknadótturinni Gerði Kristnýju (hún er ljóðskáld). Þau höfðu augljóslega verið stödd í sömu byggingu (hvar, veit ég ekki því það kom engin skýring á þessari ljósmynd í tölvupóstinum) og létu smella af sér mynd þar sem þau stóðu hlið við hlið. Hvorugt brosti í myndavélina; Karl Ove hefur víst svo vondar tennur að hann brosir sjaldan, en af hverju ekkert bros var á andliti Gerðar Kristnýjar veit ég bara ekki. Hún er venjulega svo broshýr.
ps. Ég gæti ekki skrifað um ævi mína – ég hef gleymt svo mörgu – en ég gæti prófað því ég þekki hjarta mitt og ég þekki hugsanir mínar