Espergærde. Dularfulla beltishvarfið.

Það er sennilega allt of sjaldan sem ég kem inn í fataverslun en ég átti erindi inn til Tøjeksperten i gær. Erindið var óskaplega lítilfjörlegt því mig vantaði bara belti – svart belti (ekki júdó) sem ekki var alltof breitt. Gamla beltið mitt sem ég hef átt lengi, svo lengi að ég man ekki einu sinni hvaðan það kemur, hvarf í síðustu viku á ferðum mínum um Ísland. Hvernig það gat gerst er mér gersamlega hulin ráðgáta. Ég hef leitað alls staðar!

En ég fór sem sagt til Tøjeksperten í gær til að kaupa nýtt belti – buxurnar hanga ekki upp af sjálfu sér. Strax og ég kom inn í þessa björtu búð tók á móti mér ákaflega snyrtilegur maður í jakkafötum og með rauðan vasaklút í brjóstvasanum (sem var algerlega punkturinn yfir i-ið í fínheitum hans). Hann var ekki fyrr búinn að bjóða mig velkominn inn í verslunina en hann hóf söluræðu sem mér tókst bara ekki að stöðva fyrr en eftir langa mæðu.

„Ef þú ert að leita að jakka eða buxum er algert aðalatriði að þessar flíkur hafi vasa, góða, djúpa vasa. Þú skalt vera viss um að þú sért í stakk búinn (orðaleikur haha, hann hló) til að hitta hina sönnu ást – ást við fyrstu sýn – þá þýðir ekki að vera með buxurnar niður um sig (hahaha, hann hló). Í þessum nýju fötum þarftu að líta út til að vera nógu kúl til að fólk haldi að þú sért um það bil að leysa morðgátu … “ Og loks nú tókst mér að þagga niður í þessum ákafa sölumanni. „Bíddu … bíddu … mig vantar bara belti. Engar buxur, engin föt …“ Hann lét ekki slá sig út af laginu þessi ungi spjátrungur því að hann hélt áfram að mala á meðan ég skoðaði úrval hans af leðurbeltum, Ég keypti hvorki buxur né jakka, sem er kannski afrek í ljósi þeirrar söluárásar sem ég þurfti að verjast. Belti keypti ég, aðallega af vorkunnsemi. Eða kannski var það meðaumkun, auðmýkt, hógværð, góðvild og langlyndi. Alla þessar dyggðir tókst mér að sýna í þessari stuttu búðarferð.

Bókmenntamoli. Útgefendur á Íslandi hafa nú opinberlega skotið jólabókavertíðinni í gang. Gerðist það með útgáfu á glæpasögu Ármanns Jakobssonar sem hefur fengið titilinn Urðarköttur. „Ég er Urðarköttur. Ég myrði. Ég drep. Mér verður ekkert að aldurtila. Þú munt aldrei ná mér,“ segja útgefendur í auglýsingu sinni. Að gefa glæpasögu út í lok september er djörf tilraun forlagsins til að koma snemma út úr starholunum og fá athygli á bók á meðan fáir aðrir höfundar eru á ferli veifandi verkum sínum. Vandinn við þessa aðferð er að nokkur hætta er á að bókin Urðarköttur verði gleymd þegar kemur að hinum raunverulegu kaupdögum bókakaupenda, sem er ekki fyrr en í desember. „Ekkert er eins gamalt og dagblað frá í gær,“ var einu sinni sagt. Þetta gildir líka að sumu leyti um bækur í desember „Ekkert er eins gamalt og bók frá september,“ hugsa sumir kaupendur. En í fyrra gaf Ármann út bókina Útlagamorðin (sem fékk prýðisviðtökur gagnrýnenda) en sú bók drukknaði í bókaflóðinu, sökk til botns, án þess að svo margir yrðu þess varir. Bókin hvarf sjónum fáum vikum eftir að hún kom út og engin leið var að draga hana aftur upp á yfirborð flóðsins í desember svo kaupendur gætu í það minnsta komið auga á hana þegar þeir íhuguðu jólabókakaup sín. Nú þurfa útgefendur Ármanns að vera tilbúnir með björgunarbátinn, björgunarvestin og björgunaráætlanirnar, byrji bókin of snemma að sökkva.

Mynd af bók Ármanns frá lager bókaforlagsins. Eins og sjá má hafa starfsmenn dreifingarmiðstöðvarinnar svalað þorsta sínum á þremur ólíkum gosdrykkjartegundum á meðan pökkun stóð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.