Espergærde. Flóttinn úr Djúpadal.

Það er þriðjudagur og sólin hátt á himni skín …. Það er aldeilis uppörvandi að vakna til svona blíðviðris. Ég fékk þau ráð frá félaga mínum í gær sem fannst ég hafa of margar hugsanir í höfðinu á sama tíma að fara að æfa það sem hann kallaði mudra. Það er einhver zen-æfing sem fellst í því að fá sér sæti og snúa andlitinu í hvítan, auðan vegg. Og sama hvaða tilfinningar og hugsanir koma upp á yfirborðið, óháð því hversu sterkar eða yfirþyrmandi hugsanirnar eru, á maður að sitja alveg kyrr og horfa á vegginn. Æfingin felst auðvitað í að sitja kyrr. Lengi. Ég á aldrei eftir að stunda mundra. Mér finnst ekkert athugavert við að hafa margar hugsanir svífandi um hugann á einni og sömu sekúndunni.

Ég hef satt að segja verið í töluverðu stuði og náði að klára ýmislegt í gær sem hefur hvílt á mér. Að vísu heyrði ég frá mínu íslenska Forlagi að titilinn á bókinni sem á að koma út í haust Furstynjan og drengurinn sem hvarf væri sennilega of flókinn og það var sérstaklega orðið furstynja sem fór fyrir brjóstið á Forlagsfólkinu. Ég hef því verið með hausinn í bleyti og datt fyrst í hug orðið Ilmvatnsdrottningin í stað furstynjan en sennilega er það ekki nógu gott heldur. Nýjasta hugmynd mín er Flóttinn úr Djúpadal. Það er ekta spennubókartitill.

Nágranni minn hringdi í mig í gær til að tilkynna mér að hún hefði séð dönsku útgáfuna af bókinni minni til sölu hér í Danmörku. Það kom mér á óvart að bókin væri bara allt í einu komin út hér í land. Einhvern veginn hélt ég að ég fengi upplýsingar um það en forlagsfólk virðist almennt ekki vera sérlega mikið fyrir samskipti við höfunda sína. Skiljanlega. En ég fór á netið og sá bókina og ég var bara hrifinn af kápunni. Fannst hún jafnvel enn betri en sú íslenska.

Kápumyndarstemmningin þykir mér bara fín og myndskreytingin gefur fyrirheit um meiri spennu og kannski meiri óhugnað en á þeirri íslensku. Húsið á myndinni er mjög vel heppnað og akkúrat í sama stíl og ég hafði hugsað það. Myrkur, ljós og skuggar.

En nú ætla ég út í sólina og ganga upp á Louisiana listasafnið (20 mínútna gangur) og sjá bronsskúlptúra Pers Kirkeby. Það verður sennilega lítið um vinnu í dag, sem mér finnst verra, því ég er búinn að lofa mér í tennisleik við duglega manninn klukkan 15:00.

ps. Ég hélt áfram að lesa smásögur Carvers í gær en fékk skyndilega nóg af öllu viskí-sullingu og eymdinni svo ég sneri mér til Tsjekhovs. Í sögum Tsjekhovs er ástin hinn stóri leyndardómur og þar er fólk ástfangið, ferðast fótgangandi eða á hestum og borðar dásamlegar máltíðir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.