Ég bý í litlum bæ og smámál fyrir heiminn eru oft stórmál hér í litla bænum. Stundum er meira að segja gerður úlfaldi úr mýflugu. Hér eru fjölmörg lítil mál gerð stór og sýnist, sem betur fer, sitt hverjum. Í minni götu er til dæmis verið að reisa það sem kallast “carport”, einskonar skýli þar sem fjölskyldubílnum er lagt við hús fjölskyldunnar. Þetta nýja skýlið er þyrnir í augum sumra í götunni þar sem það þykir of stórt sem “carport”. Og menn deila. Hér í Espergærde á líka að rífa niður nokkur hús niður við höfnina og reisa önnur og það er líka þyrnir í augum sumra sem telja að í bænum skapist bílastæðaskortur. Sem betur fer veit ég ekki til þess að neinn í bænum telji sig þekkja hina einu réttu skoðun og fara beri eftir henni. Ég les stundum greinar eftir fólk sem telur sig hafa beinan aðgang að sannleikanum og að skoðanir þeirra séu réttari en annarra og það er þyrnir í mínum augum.
En svo ég komi mér að efninu þá var ég á auka-aðalfundi hjá tenniklúbbnum mínum í gær. Þjálfarinn var nefnilega rekinn í síðasta mánuði af stjórn félagsins (stjórnin er samansett af áhugmönnum um framgang tennisíþróttarinnar í Espergærde) og það voru margir óbreyttir tennisspilarar, eins og ég, sem fannst leitt að okkar góða þjálfari væri bara ýtt í burt með skít og skömm. Það var hiti í fólki á auka-aðalfundinum og stóð fundurinn fram eftir kvöldi og mátti sjá reiðglampa í augum margra viðstaddra. Endaði fundurinn með því að stjórnin sagði af sér. Sennilega áttu stjórnarmenn ekki annarra kosta völ, slíkur var ákafinn og svo alvarlegar voru ásakanirnar. Ég vorkenndi þessu ágæta stjórnarfólki sem hefur sannarlega gert sitt besta, en ég var sammála fundarboðendum að ófært var að reka þennan góða þjálfara. Rök stjórnarinnar fyrir brottvísun voru bara ekki nógu sannfærandi. En um þetta verður sennilega rætt áfram í litla samfélaginu hér á austurströnd Sjálands.
Bókmenntamoli. Ég las grein í útlendu blaði í gær sem segir frá nýrri tækni við mælingar á lestri bóka. Með lestölvunni Kindle frá Amazon getur maður dregið fram allskyns upplýsingar um lesvenjur fólks, hve lengi það er að lesa, hve margar bækur fólk les, hvort fólk klárar bækur, eða hve langt fólk les áður en það gefst upp. Í greininni eru taldar upp tíu bækur sem fólk á erfitt með að klára.
- Hard Choices eftir Hillary Clinton.
Minningabók Hillary Clinton, um líf hennar sem þingmanns á árunum 2009 til 2013 seldist einkar vel og komst á topp New York Times metsölulistans. Samkvæmt niðurstöðu prófessors Jordan Ellenberg sem skrifaði greinina náðu aðeins 1,9 prósent lesenda að klára bókina. - Capital eftir Thomas Piketty.
Bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty fjallar um ríkidæmi og ójöfnuð í Evrópu, og í Bandaríkjunum, síðustu aldirnar. Þessi bók varð líka mikil metsölubók og komst sömuleiðis á tind metsölulista New York Times. En samt virðist sem afar fáum hafi þótt bókin nógu skemmtileg til að lesa hana til enda því aðeins 2,4 prósent lesenda tókst að fletta á síðustu síðu bókarinnar. - Infiniti Jest, eftir David Foster Wallace.
Árið 2005 var bók David Foster Wallace valin á lista Time tímaritsins yfir eitt hundrað bestu skáldsögur skrifaðar á ensku frá árinu 1923. Þetta er virðulegur listi sem marga höfunda dreymir um að lenda á. Þrátt fyrir þennan heiðurssess sem bókinni hlotnaðist tókst aðeins 6,4 prósent þeirra sem opnuðu bókina að lesa hana til enda. Bókin fjallar um Bandaríki framtíðarinnar í hálf-skoplegum stíl. - A Brief History of Time eftir Stephen Hawking
Ég man ekki betur en að þessi bók hafi komið út á íslensku fyrir nokrum árum og verið geysivinsæl. Ensk útgáfa bókarinnar kom fyrst út árið 1988 og hefur selst í meira en 10 milljónum eintaka. Það er breski vísindamaðurinn og ofurheilinn Stephen Hawking sem reynir að gera grein fyrir sköpun heimsins með skrifum sínum. Aðeins 6,6 prósent lesenda klára bókina. - Thinking Fast and Slow eftir Daniel Kahneman.
Prófessor Daniel Kahnman fékk sjálf nóbelsverðlaun í hagfræði árið 2011. Í þessari frægu bók dregur prófessorinn saman niðurstöður rannsókna sinna sem spanna marga áratugi. Bókin þykir athyglisverð en samanlagt náðu þó aðeins 6,8 prósent lesenda að fylgja höfundi til enda skrifa sinna. - Lean in eftir Sheryl Sandberg.
Bókin eftir hinn fræga framkvæmdastjóra Faccebook, Sheryl Sandberg, hefur undirtitil sem hljóðar einhvern veginn svona í íslenskri þýðingu: Konur, vinna og viljinn til að stjórna. Útgáfuár bókarinnar er 2013 og segir frá hugmyndum Sheryl um stjórnunarstörf og hvaða vandi mætir konum sem ná að klifra hátt á metorðastiga stórfyrirtækis. Þrátt fyrir vinsældir Sheryl náðu aðeins 12,3 prósent lesenda að klára bókina hennar. - Flash Boys eftir Michael Lewis.
Bandaríski rithöfundurin Michael Lewis náði nokkurri frægð þegar hann gaf út bókina Flash Boys sem fjallar um tæknina við kaup og sölu verðbréfa á verðbréfamarkaðinum í Wall Street, sérstaklega fjallar hann um notkun á sérstökum hugbúnaði sem selur og kaupir verðbréf á sekúndubroti. Þrátt fyrir að efnið sé ekki sélega kynæsandi náðu 21,7 prósent lesenda að klóra sig til síðustu síðu bókarinnar. - Fifty Shades of Grey, E.L. James.
Fifty Shades of Grey er erótísk skáldsaga eftri bresku skáldskonuna E.L. James og fyrsta bók í bókaflokki sem fjallar um samband ungrar konu, Anastasia Steel, háskólanema, og ungs viðskiftajöfurs, Christan Grey. Hét bókin ekki bara Fímmtíu gráir tónar á íslensku? Þrátt fyrir eða vegna hinna djörfu kynlífslýsinga náðu 25,9 prósent lesenda að komast í gegnum söguna um hið kynlífsþyrsta par. - The Great Gatsby, F. Scott Fitzgerald.
Hin klassíska bók F. Scott Fitzgerald um hinn mikla Gatsby er lífleg lýsing af glamorlífi í Bandaríkjunum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Sagan er fremur stutt, aðeins 180 blaðsíður í klassísku útgáfu Scribner forlagsins. Þrátt fyrir það eiga töluvert margir í erfiðleikum með að lesa þessa frægu sögu til enda. 28,3 prósent lesenda tekst að klára bókina. - Catching Fire eftir Suzanne Collins.
Caching Fire eða Eldar kvikna eins og bókin heitir á íslensku er önnur bókin í bókaflokknum sem kallast Hunger Games eða Hungurleikarnir. Caching Fire kom út árið 2009 árið eftir að fyrsta bókin í bókaflokknum The Hunger Games kom út og sló mörg sölumet. Þetta er einskonar vísindaskáldsaga og fjallar um þjóðina Panem í post-apocalyptic tíma. 43,4 prósent lesenda tókst að klára bókina.
Þetta var bókmenntamoli dagsins.