Mánudagur og vinnudagur. Klukkan er 09:47 og ég hef eytt fyrstu stundum dagsins í eitthvað vesen og droll.
- Vaknaði snemma en var lengi að koma mér á fætur. Lá eins og skata án þess að taka mér nokkurn skapaðan hlut fyrir hendur annað en að liggja og láta hugann reika.
- Dröslaði mér á fætur 6:45 og fór í sturtu
- Morgunmatur: Ristað rúgbrauð með osti og tveir kaffibollar. Við morgunverðarborðið sagði ég mín fyrstu orð. Davíð, unglingurinn, undirbjó sig fyrir að fara af stað í skólann og spurði mig hvort ég nennti að keyra hann. „Keyra þig? Í þessu góða veðri? Why?“ spurði ég.
„Ég nenni ekki að ganga.“
„Af hverju hjólar þú ekki?“ spurði ég aftur og enn hissa.
„Æ, hjólið mitt er svo ljótt.“
„What! Hjólið?“
„Þessi guli litur er „mega nederen“ (danskt slang ungmenna sem þýðir að eitthvað er ákaflega slæmt.)
„Er neyðarlegt að vera á gulu hjóli?“ spurði ég. Ég var enn hissa.
„Já, frekar.“
„Æ, kommon,“ sagði ég (nú skilningslítill yfir tilvistarvanda 14 ára drengja) og sendi unglinginn af stað gangandi. - Svo fór ég sjálfur út að ganga. Valdi rauðu strigaskóna mína fyrir sólina. Gekk niður nýju útidyratröppurnar og varð pínulítið stoltur yfir því sem mér fannst fín smíð. Skrúfurnar þráðbeinar og allt hárrétt. Ég gekk eftir sólböðuðum götum bæjarins. Fáir á ferli en mætti þó hjónum á göngu með hund og barn. Þau töluðu hátt og það var þvinguð kæti í tali þeirra. Það var eitthvað sem ískraði og gaf falskan tón í gleði þeirra. Furðulegt að maður hafi slíkt á tilfinningunni gagnvart ókunnu fólki. Að vísu kom í ljós, þegar við nálguðumst hvort annað, ég og þessi hópur, að þarna var annar af mönnum tveimur sem sitja vanalega á bekk við baðbrúnna með hunda sína á morgnana. Þarna var gasprarinn á ferð. Konu hans hef ég ekki fyrr séð í návígi og hún hafði þetta dæmigerða fegurðaraðgerðarandlit þar sem munnurinn verður dálítið útstæður eins og andargoggur og svipurinn í kringum nefið verður skrýtinn.
- Eftir hálftíma göngutúr kom ég heim og settist á nýju vinnustofu mína. Byrjaði á því að borga reikninga og las síðan netdagblað og af einhverjum ástæðum fór ég að vesenast í að skoða tónlistarþjónustur (Apple Music, Amazon Music, Spotify …) en það var auðvitað bara hrein tímasóun sem ég sé ákaflega eftir. Ég er áskrifandi að Spotify og það er aldeilis ágætt.
- Ég hef vanrækt að svara tölvupóstum sem mér hafa borist og ég hef vonda samvisku yfir því. Helgin fór algjörlega í tröppusmíð. Laugardagskvöldið kom hingað óvænt fjöldi gesta. Veðrið var svo gott og ísskápurinn var tæmdur á grillið og svo var setið úti í góða veðrinu fram á nótt. Ég var því þreyttur í gær, á sunnudegi. Kannski ætti ég að svara póstunum þegar ég hef lokið dagbókarskrifum.
- Já, ég þarf víst að hringja til Íslands. Ég verð að leigja bíl þegar við komum þann 28. júní. Vefsíður bílaleignanna eru eitthvað ryðgaðar eftir þessa löngu ferðamannapásu.
- En nú held ég áfram að vinna. Klukkan er 10:05. Ég hef sem sagt notað 20. mín í að skrifa þetta.