Espergærde. Sálfræðingurinn

Félagi minn, rithöfundurinn, kom í heimsókn í dag. Við höfðum ákveðið að hittast á ítalska staðnum hér í Espergærde í hádeginu. Ég var kominn á undan honum og hafði fengið mér sæti við borð innarlega á staðnum svo ég sá þegar hann kom inn úr dyrunum. Ég furðaði mig strax á fasi félaga míns sem ég hef þekkt svo lengi; ég sá að honum lá eitthvað mikið á hjarta, það var eitthvað biðjandi við blikið í augunum. En það var þó ekki fyrr en við höfðum setið í meira en hálftíma að ég uppgötvaði hvað angraði minn mann.

„Snæi, þú hefur aldrei gengið til sálfræðings … hefurðu verið hjá sálfræðingi?“ sagði hann allt í einu.
Ég hló. „Nei, ég hef aldrei verið í meðferð hjá sálfræðingi. Ég mundi ekki vita hvað ég ætti að tala um ef ég lægi á bekknum.“
„Það er ekki vandamál,“ sagði hann og þagnaði. Hann horfði hugsandi út í loftið eins og hann myndaði setningar í höfðinu.
Ég þagnaði líka því mig langaði að vita hvers vegna þessi spurning dúkkaði upp og eftir stutta íhugun sagði félagi minn: „Ég hef verið hjá sálfræðingi alveg síðan ég var ungur maður, tuttugu ára eða eitthvað svoleiðis. Ég hef hitt sálfræðinginn minn, sem er frábær í alla staði, minnst tvisvar sinnum í mánuði. Ég hef þurft á því að halda og ég get hreinlega ekki ímyndað mér að ég hefði komist í gegnum lífið án hjálp þessa manns.“
„Í alvöru, hvað hrjáir þig eða hefur … ?“
„Allt! En í grunninn þjáist ég af óttanum við að bregðast, geta ekki náð árangri í því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég get verið skelfingu lostinn þegar á að skila einhverju af mér.“
Ég horfði á vin minn sem virtist allt í einu svo sorgmæddur og lítill í sér. Hann ber ekki venjulega með sér að vera brothættur, þvert á móti. Hann er maður stórra yfirlýsinga og ekki hræddur við að ögra og stíga á tær fólks. En nú horfði hann á mig með sínum brúnu augum og ég sá ekki betur en ég horfði í augu sem báðu um huggun. Allt þetta kom mér svo á óvart.
„Getur þessi sálfræðingur ekki hjálpað þér?“ spurði ég.
„Jú, það hefur hann svo sannarlega gert en hann hringdi í mig þegar ég var á leiðinni hingað. ‘Félagi,’ sagði hann. ‘Nú er kominn tími til að þú standir á eigin fótum … Auðvitað er það ekkert vandamál fyrir þig. En ég ætlaði bara að segja að nú fer ég á eftirlaun í næstu viku. Þú ert útskrifaður!’ Þetta sagði hann. Ég á eftir að sakna þessara sálfræðitíma, þeir hafa gefið mér svo mikið.“
Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti hughreyst þennan góða mann.
„Snæi, þú ættir að prófa að fara til sálfræðings, maður fær helling út úr því,“ sagði hann og reif sig upp úr volæðinu.
„Heldurðu kannski að það lækni svimann?“

Bókmenntamoli: Nú geta áhugamenn um dagbækur farið að hlakka til því dagbækur Patriciu Highsmith, sem fundust fyrir tilviljun inni í skáp á heimili hennar í Ticino í Sviss, munu verða gefnar út í bók. Þetta eru 56 gormastílabækur, meira en 8000 síður sem ná yfir nærri sextíu ár af lífi höfundarins. Dagbækurnar, sem birta megnið af færslum Paticiu munu verða fáanlegar árið 2021.

Þetta er mynd af Patriciu Highsmith þegar hún var 28 ára gömul og bjó í London.

Bækur Patriciu hafa ekki komið út á íslensku mér vitanlega. En frægasta bók hennar er væntanlega The Talented Mr. Ripley.

Bókmenntamoli 2: Verðlaun Norðurlandaráðs í bókmenntum fyrir árið 2019 verða veitt í kvöld þann 29. október. 350.000 DKK er verðlaunaféð sem vinninghafi fær í eigin vasa og að auki eru flestar verðlaunabækurnar þýddar á öll tungumál Norðurlanda. Veðbankar telja líklegast að danska rithöfundinn Helle Helle og bók hennar de (Þeir, þær, þau) hljóti verðlaunin í ár. Eftirtaldir rithöfundar eru tilnefndir:

Danmörk:
Jonas Eika: Efter solen
Helle Helle: de

Finnland:
Marianna Kurtto: Tristania
Lars Sund: Där musiken började

Grænland:
Pivinnguaq Mørch: Arpaatit qaqortut 

Ísland
Kristín Eiríksdóttir: Elín. Ýmislegt
Kristín Ómarsdóttir: Köngulær í sýningargluggum

Noregur
Eldrid Lunden: Det er berre eit spørsmål om tid
Jan Grue: Jeg lever et liv som ligner deres

Samaland
Inga Ravna Eira: Ii dát leat dat eana

Svíþjóð
Isabella Nilsson: Nonsensprinsessans dagbok 
Sami Said: Människan är den vackraste staden

Ålandseyjar
Liselott Willén: Det finns inga monster

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.