Espergærde. Seinlæsa konan.

Ég vissi ekki hver hún var en það fór ekki framhjá mér að hún var fræg. Ég hafði tekið eftir henni og fylgdarfólki hennar á mannfæriböndunum sem bera mann hratt eftir göngum CDG flugvallarins í París. En þetta var sl. þriðjudag þegar ég var á leiðinni heim frá París. Þau voru rétt fyrir framan mig og þegar ég kom inn í biðsalinn við hlið númer 35, sat sami hópurinn í kringum þessa frægu konu. Hún bar með sér að vera bæði fræg og rík. Hún var í óvenjulega fínum fötum og svo hafði hún sérlega fín sólgleraugu á nefinu. En ég, álfurinn, tók eiginlega bara eftir bókinni sem hún var að lesa, sem er auðvitað skelfilegur vitnisburður um minn litla heila.

Ég rak nefnilega augun í að hún var með bókina Útlendinginn eftir Albert Camus í enskri þýðingu undir arminum. Ég þekkti kápuna og hef í mörg ár dásamað þessa kápu í huganum. Þessar fínu svörtu og hvítu rákir í kringum hvítan flöt með nafni skáldsins og titil bókarinnar. Auðvitað dáðist ég að þessari vel klæddu og fögru konu og velti fyrir mér í skamma stund af hverju hún væri svo fræg að hún þyrfti að vera umgirt lífvörðum eða fylgdarfólki. Ég tók líka eftir að samferðafólk okkar var að pískra í kringum mig. Í biðsalnum hafði ég fengið mér sæti á sama bekk og fræga fólkið (það var tilviljun). Fljótlega kom ung stúlka varfærnislega í átt til okkar og beindi símanum sínum í að frægu konunni og ætlaði að smella af henni mynd. Hún leit snöggt upp og bar bókina upp sem skjöld fyrir framan sig og sagði ákveðið. „Engar ljósmyndir, takk.“ Unga stúlkan tók samt myndina en læddist síðan sömu leið til baka með skottið á milli fótanna.

Ég leiddi ekki frekar hugann að þessari konu og við flugum í sömu vél til Kaupmannahafnar; flugið var á áætlun og veitingarnar um borð voru framar vonum en svo gleymdi ég henni. Hún hvarf gersamlega úr huga mér … þangað til í morgun þegar ég rakst á mynd af henni í útlensku blaði sem ég var að fletta hjá tannlækninum. Myndin sýnir hana á leið inn á hótel í Mílanó (auðvitað í fínum fötum). Og hvað? Jú, á myndinni í blaðinu er hún með sömu bók undir arminum og ég sá hana vera að lesa á flugvellinum í CDG. Útlendinginn eftir Albert Camus. Hún er augljóslega ekki sérlega hraðlæs þessi unga fegurðardís, enda er bókin ekki auðmelt. Ég komst líka að því hver hún er. Hún er það sem kallast ofurmódel (en ég er búin að gleyma hvað hún heitir. Chia Bella?)

ps. ég vinn heima í dag. Og allt hefur farið á annan veg en ég ætlaði. Hmmm

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.