Útsýnið héðan úr glugganum þar sem ég stend gæti sennilega ekki verið dapurlegra. Þungbúinn himinn, þungt regn og – þótt það sé kannski ekki hluti af útsýninu – það gnauðar í vindinum. Stormur í aðsigi.
Nú hafa yfirvöld hér í Danmörku lýst yfir einskonar neyðarástandi, skólum er lokað, opinberum stofnunum er lokað, samkomur bannaðar og fólki er ráðlagt að nota ekki opinber samgöngutæki. Ég keyrði Davíð í morgun til prestsins. Hann á að fermast í vor og presturinn ákvað að hitta fermingarbörnin. Þótt klukkan væri að verða átta að morgni var ekki sála á ferð. Ég mætti ekki einum gangandi vegfarenda. Kannski eru allir uppgefnir eftir slagsmálin í stórmörkuðunum í gær þar sem hillur voru nánast tæmdar eftir yfirlýsingu forsætisráðherra.
Þetta er sannarlega dapurlegt ástand. Eða ætti maður kannski bara að líta þetta jákvæðum augum og benda á að þetta sé kannski það sem heimurinn þurfi á Co2 tímum – örlitla pásu frá öllu kapphlaupinu – og setjist yfir sjálfum sér, pússluspili og dragi andann djúpt.
Þetta ástand hér í Danmörku breytir sennilega ekki miklu fyrir mín daglegu störf, ég sit einn alla daga og ekki í mikilli hættu að verða smitaður eða að ég smiti aðra. En fyrir marga aðra eru þetta stór umskipti.
ps. Það var aldeilis tilefni til að skála í gær. Ég undirritaði nýjan bókasamning – þeir streyma til mín bókasamningarnir. Nú þarf ég bara að skrifa svo sem eins og eina alþjóðlega metsölubók. Yo!
pps. Kannski flissa sumir nú og hugsa með sér: Hvernig væri nú að byrja á að skrifa íslenska metsölubók, dúkurinn þinn. Alþjóðleg metsölubók útilokar ekki íslenska metsölubók, hehe. Þetta minnir mig á þegar ég stofnaði mitt danska forlag fyrir löngu, Hr. Ferdinand. Af því tilefni var tekið viðtal í DV við langa forleggjarann þar sem hann sagði frá áformunum sínum og var brattur og bjartsýnn í viðtalinu. En helgina á eftir þótti blaðamanni á sama blaði ástæða til að slá á trýnið á þessum borubratta slána: „Algjörlega ofmetinn af sjálfum sér,“ skrifaði blaðamaðurinn og birti mynd af hinum stórnefjaða útgefanda þar sem hann horfði dreymandi út í blámann. „Hvernig væri nú að byrja á að selja bækur á Íslandi áður en maður byrjar að stofna forlag í útlöndum.“ Ég man að mér var alveg sama um þessi skrif (sem er ekki alveg dæmigert fyrir mína viðkvæmu lund), en minn góði samstarfsmaður Jón Karl var hins vegar gífurlega reiður yfir orðum blaðamannsins og skrifaði frétt á Bjartsvefinn þar sem hann sendi blaðamanninum nokkuð harðorða áminningu. Þetta var fyrir mörgum árum.