Espergærde. Upp með dalina, niður með fjöllin.

Eftir mikla þögn umheimsins undanfarna daga fékk ég í gær bæði símtöl (og það gerist ekki oft hin síðari ár að fólk hringi), bréf í pósti og tölvupósta frá alls lags fólki sem vildi mér gott. „Hugsýki íþyngir hjartanu, eitt vingjarnlegt orð gleður það,“ var stundum sagt á heimili mínu til að minna mig á að vera hjartaprúður og passa upp á vini mína.

Að líta í eigin barm og gangast við eigin mistökum, í stað þess að vorkenna sjálfum sér og kenna öðrum um það sem aflaga hefur farið, er víst ekki öllum gefið. Stundum verð ég bara hissa á hvað fólk leyfir sér að skrifa; furðuleg sjálfsupphafning. „Upp með dalina, niður með fjöllin,“ var víst einu sinni sagt.

Bókmenntamoli: Verðlag á íslenskum skáldsögum hefur verið til umræðu og þykir sumum íslenskar bækur of dýrar. Of dýrar miðað við hvað er freistandi spurning. Hversu mikils metur maður bók, hvers virði er íslensk skáldsaga? Vinsælasta bók landsins um þessar mundir er bók Andra Snæs Magnasonar sem heitir Um tímann og vatnið. Verð bókarinnar er 4.990 ikr. Mjög vinsæl íslensk barnabók kostar 2.990 íkr. og önnur síður vinsælli íslensk barnabók kostar líka 2.990 ikr.
Á Dominos getur maður fengið stóra pepperoni pizzu fyrir 3.880. Kippa af Úlfur IPA bjór kostar 2.904 ikr. hjá ÁTVR.
Tólf rúllur af klósettpappír kosta 1000 krónur, á þær er ekki prentað, þar fylgir enginn texti sem krefst höfundar, ritstjórnar, prófarkalesturs, umbrots, pappírsgæðin eru lakari og pappírsmagnið í 36 klósettrúllum minna en í íslenskri barnasögu.
En það er enginn sem vælir sérstaklega yfir verði á Dominos pizzu eða klósettpappír. Hvers vegna þá bókum?
Ég bendi á að barnabækur getur maður líka notað sem klósettpappír, 250 síðna barnabók dugir lengur en 36 klósettrúllur og þá sparar maður.
Er Dominos pepperoni pizza meira virði en íslensk barnabók? Ég get að minnsta kosti sagt með 100% vissu að framleiðslukostnaður pizzunnar er margfalt lægri en einnar barnabókar. Hvaða almennilega jólagjöf fæst fyrir minna en 4.990 ikr. getur maður líka spurt? Hvað getur maður gefið barni sem kostar minna en 2.990 ikr? Ég veit það ekki, þess vegna spyr ég.
ps. Til samanburðar kostar ný vinsæl skáldsaga (Kim Leine) hér í Danmörku 249 DKK (sem svarar til 5000 króna). Ég þarf sennilega ekki að benda á mismuninn á sölumöguleikum þessara tveggja markaða.
pps. Ef maður vill gefa barni eitthvað með bókstöfum getur maður pakkað í jólapappír síðerma bol með áprentuðum bókstaf. Það er til dæmis hægt að fá bol með bókstafnum J. (sjá mynd). Þessi bolur kostar 4.000 ikr.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.