Hvalfjörður. Garðyrkjumaðurinn er farinn í dag.

Og Íslandshringnum er lokað. Hvalfjörður -> Hvalfjörður. Í dag keyrðum við frá Jökulsárlóni og alla leið í Hvalfjörðinn með nokkrum fínum stoppum. Best þótti mér að fara upp að vitanum í Dyrhólaey. Svakalega er sá viti flottur. Hann er byggður árið 1922, veggjaþykkur og traustur. Vitinn var nýmálaður, hvítur og rauður og stóð afar tignarlegur á klettabarminum. Stórkostleg sýn.

Ég byrjaði þó morguninn í morgun – ég svaf alveg til klukkan hálfátta – á að ganga upp í hlíð fyrir ofan húsið sem ég hafði gist í. Þar var fallegur foss, og hlíðin klædd grasi, lyngi, mosa og birki. Allt ilmaði. Þarna hafði ég fundið sælureit. Ég kom mér makindalega fyrir á þúfu með kaffibolla, flatköku og fagurrautt epli. Þessar fínu morgunveitingar hafði ég haft meðferðis að heiman. Ég sat og horfði stundarkorn upp í bláan himininn og leyfði sólinni að skína á andlitið á mér. Það var bæði lygnt og hlýtt og allt ilmaði. Í þessu upplyfta ástandi fór ég að velta fyrir sér hinum frábæra titli: Himinninn yfir Berlín. Það er flott heiti á kvikmynd, hugsaði ég. Eiríkur Guðmundsson skrifaði bók sem hét Undir himninum sem líka er góður titill en á sínum tíma kallaði ég alltaf bókina Sotto cielo (ítalska). Svona velti ég vöngum í þessum notalega lundi með lokuð augun. Ég beit í safaríkt eplið og lét sólina verma andlitið.

Skyndilega stóð yfir mér gömul, gráhærð kona, í blómakjól og með ansi hlykkjóttan göngustaf. Ég hafði alls ekki orðið var við hana nálgast enda hafði ég verið með augun lokuð og djúpt sokkinn í hugsanir mínar. En nú stóð hún yfir mér.
„Þú mátt ekki vera hérna, vinur,“ sagði hún skjálfandi röddu. „Ekki hérna í garðinum.“
Mér brá við þetta ávarp.
„Ó, fyrirgefðu, ég vissi ekki …“ hrökk upp úr mér.
„Það eru allir farnir núna. Meira að segja garðyrkjumaðurinn. Hann er farinn í dag,“ sagði hún og það var mildi í rödd hennar.
Ég skyldi alls ekki hvað hún átti við, það var morgunn og ekki var þessi gróna fjallshlíð verk garðyrkjumanns?

Ég stóð því hikandi á fætur – kannski má nota orðið treglega – og lallaði af stað með flatkökuna í annarri hendi og kaffibollann og eplið í hinni. Ég var satt að segja vonsvikinn því það hafði farið svo vel um mig í þessum lyngilmandi Edens-garði.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.