Lesendaverðlaun félags íslenskra bókaútgefenda. 

Fyrir nokkrum vikum var birt auglýsing frá Félagi íslenskra bókaútgefenda þar sem félagið leitaði að fólki sem hefði áhuga á bóklestri til að sitja í dómnefnd fyrir það sem félagið kallar Hin íslensku bókmenntaverðlaun. Þetta er stórt nafn enda líta verðlaunin á sig sem æðstu bókmenntaverðlaun landsmanna. Verðlaunum er ætlað að heiðra það áhugaverðasta og besta sem kemur út á íslenskum bókamarkaði á hverju ári. Ritnefnd Kaktusins getur ekki varist því að furða sig á því að bókaverðlaun með svo virðulegt nafn (og líti á sig sem æðstu bókmenntaverðlaun Íslands) ákveði að skipa dómnefndina með Jónum og Gunnum þessa lands.

Að skipa fólk í svo mikilvæga dómnefnd bara af því að það segjast kunna að lesa og hafi gaman af bókum er furðuleg ráðstöfun. Ekki er gerð nein krafa til þekkingar á íslenskum bókmenntum eða því sem efst er á baugi útlendum bókmenntum. Engin krafa er gerð til þekkingar á íslenskri bókmenntasögu. Einu kröfurnar sem gerðar eru til dómnefndarfólksins er að þau kunni að stafa sig í gegnum bækur og segist vera nokkuð áhugasamt um bóklestur. Niðurstaða dómnefndanna er því oft jafnfurðuleg og samsetning nefndarinnar.

Hingað til hafa bókmenntir verið talið listform. Á sama hátt og myndlist, tónlist og kvikmyndalist. Ef veita ættu íslensku myndlistarverðlaunin, sem dæmi, væru örugglega fengnir fagmenn  til að velja þann sem ætti þann heiður skilið að hljóta slík verðlaun. Í dómnefndina yrðu væntanlega valdir einstaklingar sem hefðu víðtæka þekkingu á íslenskri og erlendri myndlist og góða þekkingu á listasögu. Dómnefndin teldist ekki marktæk ef í dómnefndina veldust þeir sem hafa „gaman af myndlist og hafa séð margar myndlistasýningar.“

Það virðast gilda aðrar viðmiðanir þegar velja skal það bókmenntaverk ársins sem skarar fram úr og er verðugt til að hljóta tilnefningu til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna. Í nefndina hafa undanfarin ár verið valin hópur fólks sem hefur „gaman af því að lesa bækur“ og þiggur smá vasapeninga að launum.

Með þessu dómnefndarformi getur Félag íslenskra bókaútgefenda ekki kallað bókaverðlaun sín Hin íslensku bókmenntaverðlaun. Það er algert rangnefni og óvirðing við bókmenntir sem listform. Verðlaunin eru algerlega ómarktæk sem bókmenntaverðlaun. Réttnefni þessara verðlauna er Lesendaverðlaun félags íslenskra bókaútgefenda.

Bókmenntaverðlaunin hafa undanfarin ár misst vægi sitt og því miður hefur áhuginn fyrir verðlaununum dvínað mjög. Fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á verðlaununum og segja frá tilnefningum í smáfréttum á innsíðum ef yfir höfuð er minnst á tilnefningar. Almenningur hefur enn minni áhuga á þessum verðlaunum enda er ekkert er gert til að vekja áhuga  á þeim. Kannski er ástæðan fyrir daufleika verðlaunanna að félagið sem stendur að baki verðlaununum, Félag íslenskra bókaútgefenda, er sjálft gersamlega búið að missa áhugann á eigin verðlaunum. Sennilega væri réttast væri að leggja verðlaunin niður og hlífa þeim sem hafa raunverulegan áhuga á íslenskum bókmenntum við horfa upp á  þessa hörmung sem verðlaunin eru orðin.

dagbók

2 athugasemdir við “Lesendaverðlaun félags íslenskra bókaútgefenda. 

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.