Það voru hressilegar móttökur sem verðlaunagetraunin frá í gær fékk. Nokkur skemmtileg bréf bárust hingað til Ítalíu þar sem harla ólíkir lesendur Kaktusins reyndu að vinna hin veglegu verðlaun sem voru og eru í boði. Það kom mér reyndar á óvart hve margir hafa höfund Íslands ofarlega i huga því í mörgum svörum, ekki nærri öllum, en í mjög mörgum svörum var Hallgrímur Helgason í aðalhlutverki. Í béfunum sem hingað bárust var líka oft skemmtilegur röktuðningur fyrir svörum viðkomandi. Hvers vegna menn völdu hinn en ekki þennan rithöfund í væluhlutverkið og hvers vegna ákveðinn rithöfundur fékk gleðihlutverkið.
Annars setti einn bréfritari fram þá kenningu að um væri að ræða eins konar dæmisögu frá minni hendi sem lesendur gætu dregið lærdóm af. Svo er alls ekki. Hér er engin dæmisaga á ferð og ég hef alls ekki í huga að kenna lesendum Kaktusins eitt né neitt með þessari litlu sögu úr hinum reykvíska hversdagsleika.
Þeir höfundar sem komust á listann voru:
Hallgrímur Helgason (sem lendir í efsta sæti þar sem flestir völdu HH í eitt af hlutverkunum.)
Gyrðir Elíasson
Óttar M. Norðfjörð
Sjón
Steinar Bragi
Eiríkur Örn Norðdahl
Stefán Máni
Andri Snær Magnason
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Jónas Hallgrímsson (sá fúli)
Sigurður Pálsson
Gerður Kristný (Alvitlaust. Ég tók fram að um væri að ræða karlkyns höfunda.)
Kristín Marja Baldursdóttir (Líka alvitlaust.Ég tók fram að um væri að ræða karlkyns rithöfunda.)
Það voru nokkrir fleiri rithöfundar nefndir en í svo miklum hálfkæringin að þeir komast ekki á listann, s.s. Eiríkur Guðmundssson, Hermann Stefánsson, Arnaldur Indriðason, Einar Kárason. Það var enginn af þátttakendunum í getrauninni sem gat upp á réttum nöfnum svo ég tek á móti svörum á morgun.
Í dag hef ég enn gengið um Milanóborg. Sus, Númi og Davíð eru áhugasöm um að skoða verslunarvarning. Ég hef ekki þann áhuga svo ég hafði mína einkagöngu. En í þetta sinn með Jón Kaldal andandi niður um hálsmálið á mér. Ekki þó í bókstaflegum skilningi. Við erum í smá keppni, við Kaldal, sem gengur út á að safna hreyfingarstigum í gegnum lítið app sem kallast FitBit. FitBit mælir allar okkar hreyfingar (og svefn); telur skref, vegalengd sem við leggjum að baki, hve margar hæðir maður fer upp o.s.frv. Við Kaldal keppum í hver hefur gengið lengst síðustu sjö daga. FitBit mælir skrefafjölda og sendir út í símana okkar. Þar sem ég hef verið ferkar upptekin yfir vinnu síðustu daga hefur Kaldal haft forystuna tvær undanfarnar vikur en í dag tók ég fyrsta sætið og það hugnaðist ekki keppnismanninum Kaldal, sem rauk út til að slá gras heima hjá sér, dró sofandi hund út í göngutúr, hljóp út á Klambratún, fór þar marga hringi og aftur til baka heim á leið… Satt að segja hefur keppnin verið svo hörð í dag að ég hef eiginlega ekki getað sest rólegur niður. En í þessum skrifuðum orðum er staðan 101.601 skref (Snæi) og 98.497 skref (Kaldal). Kaldal hefur aftur og aftur minnt mig á að ég er tveimur tímum á undan þar sem ég er staddur í Evrópu og hann á Íslandi svo ég fer ekki rólegur upp í rúm í kvöld.
Á morgun keyrum við í gegnum Alpana og lendum í Frakklandi, Chamonix. Þar verðum við næstu daga.
ps. Borðuðum í gær á veitingahúsi með vini okkar Pietro, ítalska útgefandanum, og konu hans sem er brasilísk og starfar sem arkitekt. Hún hefur sérhæft sig í yfirgefnum þorpum á Ítalíu. Þau mundu vera um það bil 5000, yfirgefnu þorpin á Norður-Ítalíu. Flest eru þorpin uppi í fjöllunum í Liguriu og Piamonde og voru þau flest síðast í byggð fyrir 20 árum. Nú er vaknaður áhugi hjá mörgum að endurbyggja þessi þrop. Hægt er að kaupa yfirgefið þorp á 1000 euro. Hún sagði okkur sögur af velheppnaðri enduruppbyggingu lítilla þorpa þar sem nú voru risinn lítil hótel, litlar búðir, sumarhús, barir og veitingastaðir. Þeir sem hafa byggt flest þessara þorpa upp eru útlendingar sem koma yfir sumarmánuðina og eru þorpin því dauð á veturna en lifna upp á sumrin. Svona verkefni hafa mér alltaf þótt svo heillandi. Ég hef sjálfur ekki upp á mikið að bjóða við að byggja upp þorp. Ég er hvorki arkitekt, verkfræðingur né sérstakur handverksmaður. En ég hef gaman af að vinna og erfiða, láta hendur standa fram úr ermum og reisa eitthvað fallegt. Kannski kaupi ég eitt þorp.