Farandbóksalarnir

Það var í kringum 1986  – á mestu dýrðardögum bóksölu á hjólum – að Herbert Guðmundsson gaf út popplagið Can’t Walk Away  Lagið varð gífurlegur smellur og gerði Herbert  að mikilli popphetju á Íslandi en fram til þessa hafði Herbert helst það sér til frægðar unnið að vera besti farandsölumaður bóka á Íslandi. Hring eftir hring keyrði Herbert á stóra bílnum sínum sem var stappfullur af bókum frá Erni og Örlygi (Íslenska alfræðibókin, Ensk-íslenska orðabókin) og Svart á hvítu (Íslendingasögur, Sturlungasaga og heildarverk Jónasar Hallgrímssonar). Herberti var alls staðar vel tekið. Hann mætti fyrirvaralaust inn í eldhús og stofur landsmanna; greip í uppvaskið í einbýlishúsi á Fáskrúðsfirði, ryksugaði stofugólf í Djúpavogi og hjálpaði til við garðslátt á Siglufirði um leið og hann vann hylli húsmæðra og húsbænda og seldi  þeim bækur í tonnatali á raðgreiðslum.

Lagðist þessi farandbóksala meira og minna af í lok síðustu aldar. Herbert lét sig hverfa af vettvangi þrátt fyrir allt. Svart á hvítu fór á hausinn og það gerði bókaforlagið Örn og Örlygur líka.

Mörg ár eru liðin. En nú gerist það aftur. Nýir og óvæntir farandbóksölumenn koma nú fram úr skúmaskotum. Skyndilega, í miðri kreppu íslenskra bóksala og íslenskrar bóksölu, spretta upp (pop-up) bókabúðir íslenskra rithöfunda. Frést hefur hingað á ritstjórnarskrifstofu Kaktussins að Eiríkur Örn Norðdahl hafi t.d. skipulagt allviðamikla, mánaðarlanga, söluherferð fyrir bækur sínar. Mun hann hafa keypt ný dekk á bílinn sinn, leigt posa og teiknað upp langferð hringinn í kringum Ísland þar sem hann mætir með posa og eigin bækur (nýja og gamlar) á bíl með nýjum dekkjum, les upp úr nýrri skáldsögu sinni, heldur slideshow og vonast til að fjármagna sjálfan sig og posaleiguna með massívri bóksölu í anda Herberts.  Munu fleiri rithöfundar hafa heillast af þessu stórhuga framtaki Eiríks og íhuga að bruna um landið í hjólför Ísafjarðarskáldsins með bækur í skottinu og leiguposa í hliðartöskunni.

Kaktusinn tekur ofan fyrir sjálfsbjargarviðleitni skálda.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.