„Af hverju öll þessi leynd yfir útgáfu bókar?“

Það er byrjað að flæða að. Bókum jólabókaflóðsins skolar á land einni af annarri; Armiló eftir Þórdísi Helgadóttur kom út í gær og Mömmuskipti Arndísar Þórarinsdóttur og Helgu S. Einarsdóttur líka. Fyrr í vikunni komu út Men, Sigrúnar Pálsdóttur og Náttúrulögmál Eiríks Arnar Norðdahl … og svona mætti lengi telja ….

Svo skemmtilega vill til að Kaktus-ritnefndin er á ferðalagi um Ísland þessa dagana og tókst í gær að útvega sér bók Italo Calvino, Borgirnar ósýnilegu sem líka er komin út.  Formaður ritnefndar Kaktussins er sérstaklega spenntur fyrir þeirri bók og  getur ekki annað en dáðst að framtaki Uglu, útgáfunnar, fyrir hugrekki sitt og þor í útgáfu þýddra bóka á íslensku.

Bók formanns ritnefndar Kaktussins kom líka út í gær; Hin útvalda, heitir bókin. Var ekki ætlunin að kynna hana hér á þessum vettvangi. En eftir að Kaktusnum barst bréf í gær þar sem lesandi furðaði sig á því að bókin kæmi út í svo miklum kyrrþey var ákveðið að minnast á útgáfu bókarinnar:

„Sæll Kaktus,  langtímalesandi en fyrsta aðdáendabréf, það er eins og það er. Ég legg það ekki í vana minn að trufla upptekna bloggara en ég er með spurningu sem ég verð að koma frá mér. Hún er svona:

Þú ert að gefa út nýja bók!
Til hamingju með það.
Ég rak augun í hana á vef Pennans í morgun og hugsaði: „huh, hann hefur ekki minnst einu orði á þessa skáldsögu á Kaktusnum.“ Ég hafði virkilega gaman af fyrstu skáldsögu höfundar í fyrra, fannst hún sterkt og ferskt innlegg í svolítið staðnaða spennusagnasenu á Íslandi, svo ég hlakka til að lesa þessa.
Þá komum við að spurningunni: af hverju öll þessi leynd yfir útgáfu bókarinnar? P…“

Bréfaskrif þessi ollu nokkru hugaragri og urðu  til þess að minnst verður á hina nýju bók: Í stuttu máli. Í gær kom út bókin Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson sem er einskonar framhald glæpasögunnar EItt satt orð sem kom út í fyrra. Haraldur lögreglumaður var þar í aðal-aukahlutverki en í  nýju bókinni er Haraldur í algjöru aðalhlutverki og er sögumaður bókarinnar. Sagan gerist 25 árum áður (árið 1998) en þeir atburðir sem Eitt satt orð lýsir áttu sér stað. Í Hinni útvöldu ákveður Haraldur að ráða sig til starfa í litlu sjávarþorpi á austurströnd Íslands og væntir þess að eiga náðuga daga í starfi sínu sem lögreglumaður en skömmu eftir komu hans fara undarlegir hlutir að gerast þarna í fásinninu  – og síðan hverfur ungur maður …

Í dag kemur bókin Eitt satt orð út á ítölsku. Eru þetta fyrstu hikandi skref þessarar glæpasaganaraðar um Harald Matthíasson lögreglumann í átt til mikilla heimssigra, yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.