Síðustu fótboltaskór lífsins

Eftir fótboltaæfinguna í gær sá ég að fótboltaskórnir mínir eru ónýtir. Þeir eru rifnaðir þar sem sjötta táin á hægri fæti er. Ég hafði haldið að þetta væru síðustu fótboltaskórnir í lífi mínu en svo er ekki. Ég þarf að kaupa eitt par í viðbót. Það er gaman að maður geti enn verið með þótt samherjar og mótherjar séu orðnir töluvert yngri en ég. En eftir sumarfrí kaupi ég nýja fótboltaskó. einhverja skótýpu sem rúmar sex tær á hægri fæti.

Ég fór seint á fætur í morgun. Eftir fótboltaæfingu kvöldsins var kroppurinn á mér í hálfgerðu sjokki og ég vaknaði hvað eftir annað mitt um nótt við krampa í lærvöðvunum og það er frekar óþægilegt. Ég nennti því ekki á fætur fyrr en klukkan að verða sjö. Úti var bjart enda lengsti dagur ársins. Þótt ég kæmi mér seint fram úr var ég samt fyrstur að koma mér niður í eldhús til að hella upp á kaffi og búa til morgunmat. Á meðan hafragrauturinn minn mallaði opnaði ég hurðina út á verönd til að fá ferskt loft inn og þar blasti úti við mér heldur undarleg sjón. Á pallinum stóðu háhælaðir kvenmannsskór. Eins og einhver kona – ég geri ekki ráð fyrir að það séu fordómar að álykta sem svo að það hafi verið kona sem hafi gengið í þessum háhæluðu skóm í stærðinni þrjátíu og sjö – hafi ákveðið að fara úr skónum á veröndinni fyrir framan eldhúsið og ganga berfætt það sem eftir var nætur. Nema að hún hafi haft annað skópar – kannski flatbotna – meðferðis á veröndinni hjá mér og farið í þá.

Ég hef enga skýringu á þessu skópari.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.