USA, Moab. Bilið milli sálar og penna

Við keyrum lengra inn í eyðimörkina og erum komin langt inn í Utah-fylkið. Fylki Mormóna. Hér er rauður sandur yfir öllu og landslagið heldur áfram að minna á cowboymynd. Stakir klettar rísa upp úr sandinum og gnæfa yfir eins og risaskúlptúrar.  Í fjarska eru klettabelti, með röndóttum sandlögum, gulum, gráum og rauðum. Hér eru ekki tré, bara lággróður og himinninn er víður  yfir okkur.

Við höfum nú keyrt 1000 km frá Las Vegas og gistum rétt fyrir utan lítið þorp sem heitir Moab. Mitt í sandauðninni standa litlar íbúðir í röðum, minna svolítið á sumaríbúaðhverfi BHM. Tveir tennisvellir eru á svæðinu. Coloradofljótið rennur hér við bakdyrnar og yfir okkur gnæfir eitt af þessum mikilfenglegu klettabeltum.

IMG_6695
Þetta er ekki PhotoShop-mynd. Myndin er frá Monument Valley

Ég man eða mig minnir að ég hafi sagt í einum af mínum kaktusfærslum að ég hafi brugðist Pétri Má, forleggjaranum hjá Veröld. Ég hef fengið nokkuð margar fyrirspurnir um hvernig ég hafi brugðist manninum. Ég er of þreyttur til að segja þá sögu nú, en ég segi hana seinna, þótt ég blóðroðni af skömm við tilhugsunina um þetta skelfilega atvik.

Þegar ég byrjaði að skrifa á kaktussíðuna, í upphafi ferðalagsins,  var hugmynd mín fyrst og fremst að halda við íslenskunni. Ég segi núorðið sjaldan orð á íslensku og mér fannst ég smám saman vera missa tök á tungunni. Ég brá því á það ráð að fara skrifa dagbók. Skrifa ferðalýsingu. Ég hugsaði með mér að með því slægi ég tvær flugur í einu höggi.  Þjálfa og viðheld íslenskunni og um leið upplýsi ég fjölskyldu og vini hvað á daga mína drífur og hvernig ferðinni miðar. Sem bónus flyt ég hræringar sálarinnar á prent.

Ég las í gærkvöldi bréfaskifti tveggja vina, tveggja rithöfunda, Karl Ove Knausgård og sænska rithöfundarins Fredrik Ekelund, sem nýlega eru komin út á bók. Þetta var gaman að lesa, einkum í ljósi þess hvað mér finnst orðið ánægjulegt þegar einhver tekur upp á því að skrifa mér langt bréf (e-mail) um eigin barning og brölt. Gleði mín er sterkari nú þegar mér berst slík skrif, því ég sakna félaga og fjölskyldu, og bréfin bæði róa mig og skemmta mér. Ég tók eftir því í bréfaskriftum þessara tveggja manna sem ég minntist á, Knausgård og Fredriks,  hvað þeim var hugleikið bilið á milli sálar og penna. Hvað þeim finnst erfitt að flytja hræringar sálarinnar á blað. Þetta er sennilega flestum rithöfunum hugleikið. Allt þeirra skriferí í gegnum tíðina, segja þeir, hefur miðað að því að gera bilið minna. Ég reyni hér með að taka þessa herramenn, að þessu leyti, mér til fyrirmyndar.

IMG_6703
Útsýnið hér á gististaðnum

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.