Bréf lektorsins

Ég fékk ansi virðulegt bréf í morgun skrifað af háttvirtum lektor í Háskóla Íslands sem benti mér vinsamlega á að ég hefði farið með einhverja bölvaða vitleysu í dagbókarfærslu gærdagsins þar sem ég hélt því fram að liturinn blár væri hvergi nefndur í Íslendingasögunum. Hvernig gat ég gleymt öllum bláu skikkjunum sem prýddu suma höfðingja landsins?

Þótt lektorinn, í sínu hógværa bréfi, nefni ekki staði þar sem bláar skikkjur ganga inn á sögusviðið veit ég að lektorinn hefur rétt fyrir sér.

Í gær fór ég á tónleika í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Fínir tónleikar með jazz og flaminco-tónlist. Áheyrendur voru fjölmargir og þar á meðal (svo ég beiti nú skýrslutækninni hitt fólk) voru Fríða Ingvarsdóttir sem ég titlaði skólastjóra en auðvitað er hún rektor og mann hennar Fiðlu-Hansa eða Hans Jóhannsson. Ég segi nú bara eins og Sus, „rigtig søde mennesker“ og gaman að hitta þau.

Eftir tónleikana ákváðum við að borða á Hótel Glym af því að við nenntum ekki að elda kvöldmat. Það var augljóst, bæði á þjónustu og eldamennsku, að erfitt er fyrir veitingastaði landsins að fá gott fólk til starfa. Þjónarnir sem þjónuðu okkur voru sem persónur til fyrirmyndar en biðtíminn eftir einföldum rétti var hlægilega langur. Og kokkurinn var augljóslega ekki í stuði í gær. Það lá við að ég kallaði til þjónsins: „Þjónn, súpan mín er köld.“

Í dag höldum við af stað í tjaldferðalag og stefnum í austurátt og tjöldum væntanlega í Þakgili í nótt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.